„Við leggjum okkur alla fram, notum þá möguleika sem við höfum og berjumst fyrir okkar rétti,“ segir Ólafur Ísleifsson, þingmaður utan flokka, í samtali við Viljann sem hafði áhuga á að vita meira um þann aðstöðumun sem skapast hefur fyrir hann og Karl Gauta Hjaltason á Alþingi fyrir þá til að vinna fyrir sína kjósendur á Alþingi, eftir að Inga Sæland, formaður Flokks fólksins, gerði tillögu sem var samþykkt um að reka þá úr flokknum.
„Skipulag þingsins miðast við þingflokka og það þarf þarf þrjá menn til að stofna þingflokk, nema sé það gert beint í kjölfar kosninga,“ segir Ólafur.
Þingflokkum er séð fyrir sérfræðiaðstoð, hver þingflokkur hefur ritara og aðstoðarmann að lágmarki, og stærri flokkarnir jafnvel fleiri. Að auki hafi formenn stjórnarandstöðuflokka aðstoðarmann.
Þetta þýðir að tveggja manna þingflokkur Flokks fólksins fær alla þessa aðstoð, þar á meðal þrjá starfsmenn, en tveir þingmenn utan flokka ekkert.
„En við erum bara tveir og megum ekki kalla okkur þingflokk. Við fáum því hvorki ritara né aðstoðarmann og njótum ekki þeirra réttinda sem þingmenn þingflokka almennt hafa, til dæmis er ræðutími okkar styttri en annarra þingmanna,“ segir Ólafur, og bætir við að jafnframt eiga allir þingflokkarnir fulltrúa í forsætisnefnd og á fundum þingflokksformanna með forseta Alþingis, en þar eigi þeir engan fulltrúa og hafi ekki verið boðið að vera áheyrnarfulltrúar. „Við eigum því enga aðild að skipulagningu dagskrár og starfa þingsins.“
„Það hefur verið rætt um að halda fund með forseta Alþingis um málið, en af slíkum fundi hefur enn ekki orðið. Við Karl Gauti tilkynntum það með bréfi til forseta Alþingis, 3. desember sl., að við myndum hafa með okkur samstarf,“ segir Ólafur jafnframt.
Einnig undanskildir óformlegu skipulagi þingstarfa
Þrátt fyrir að aðeins um óformlegt samkomulag á milli þingflokka hafi verið að ræða, um að taka samgönguáætlun til lokaumræðu á Alþingi sl. fimmtudag, til að koma á framfæri samantekt helstu sjónarmiða flokkanna, hafi Ólafi og Karli Gauta ekki verið boðið að vera þátttakendur í skipulagningu dagskrár þeirrar umræðu, og var fulltrúa þeirra, Karli Gauta, úthlutað aðeins helmingi þess ræðutíma sem fulltrúar þingflokkanna fengu.
Karl Gauti var því stöðvaður af bjöllu þingforseta í miðri ræðu sinni. Hann mótmælti því og kvað sig ekki vera bundinn af óformlegu samkomulagi sem þeir Ólafur hafi ekki fengið aðild að því að skipuleggja, og vísaði í þingsköp um ræðutímann, sem Jón Þór Ólafsson, 5. varaforseti Alþingis, hafi að lokum tekið til greina.
Þegar Viljinn spurði Ólaf hvort hann væri tilbúinn að ganga til liðs við flokk Flokk fólksins að nýju, segist hann ekki vilja útiloka það ef til kæmu nauðsynlegar breytingar á forystu flokksins.
Aðspurður hvort hann sjái einhverja aðra lausn framundan á þeirri stöðu sem þeir Karl Gauti, þau mál og þeir kjósendur sem þeir standa fyrir séu í á Alþingi, segir Ólafur, og vill taka fram að þrátt fyrir þennan aðstöðumun leggi þeir Karl Gauti sig alla fram við sín störf sem þingmenn:
„Ég er auðvitað tilbúinn að skoða alla þá möguleika sem gætu sett mig í þá stöðu að geta unnið sem best fyrir mína kjósendur,“ segir Ólafur, en eins og Viljinn skýrði frá á dögunum, hafa þeir tvímenningar verið orðaðir við Miðflokkinn.