Friðrik Jónsson, öryggis- og varnarmálasérfræðingur og fv. formaður BHM, er ekki par hrifinn af pistli Ögmundar Jónassonar, fv. þingmanns og ráðherra VG, í Morgunblaðinu í gær og segir hann veikan fyrir Rússaáróðri og vilji gangast undir skilyrði ofbeldismannsins Pútíns Rússlandsforseta.
Grein Ögmundar bar yfirskriftina „Hvort viljum við Eisenhower eða Biden“ og er þar varað við dekri við hergagnaframleiðendur og gróðasókn þeirra. Segir hann þar frá draumi sínum um ráðstefnu um stríðið og skrifar:
„Í umræðunni átti ég á brattann að sækja eftir að ég hafði upplýst að ég vildi að heimurinn sammæltist um að láta hernaðinum lokið þegar í stað og skilyrðislaust. Engin krafa um eitt né neitt annað en að hætt yrði tafarlaust að myrða fólk. Öllum vopnasendingum lokið hér og nú og aftur án skilyrða. Framhaldið yrði einfaldlega rætt í framhaldinu.“
Friðrik kallar í færslu á fésbókinni þessi skrif ráðherrans fyrrverandi „yfirlæti“ og í sjálfu sér sé „ekkert skrítið að sigur jafn vitlausra sjónarmiða, strámanna og whataboutisma geti ekki unnist nema í draumaheimi hans sjálfs, en greinin er upplýsandi fyrir það hvað meintir hernaðarandstæðingar geta verið ginnkeyptir fyrir rússneskum áróðri sama hvað er að gerast og þrátt fyrir hrópandi sönnunargögn um hið gagnstæða skuli alltaf komast að þeirri niðurstöðu að Bandaríkin og önnur vesturlönd beri í reynd ábyrgð á öllu saman einhvernveginn.“
Segir hann skína í gegnum skrif Ögmundar fyrirlitning á sjálfstæði og sjálfsákvörðunarrétti Úkraínu og íbúa hennar. Þeir séu „leiksoppar illra afla í NATO“ og algerlega fjarri öllu í grein Ögmundar sé ábyrgð Rússlands sem þó hafi ráðist inn í Úkraínu – í tvígang.
„En hvað þýddi það í raun ef vopnin yrði kvödd fyrirvaralaust og skilyrðislaust eins og Ögmundur er að leggja til í yfirlæti sínu – algerlega ónæmur fyrir þeirri þversögn þegar hann gagnrýnir þann herskáa í ímynduðu samtali sínu fyrir að vera í yfir þrjú þúsund kílómetra fjarlægð frá stríðinu að sjálfur er hann í yfir fjögurþúsund kílómetra fjarlægð – og hefur enga reynslu sjálfur af nánd við stríð. Heppinn þar.
Ef allt yrði stöðvað í dag myndi það þýða að víglínur yrðu frystar (hversu lengi sem það myndi duga) og refsileysi yrði þá væntanlega vegna þeirra voðaverka sem þegar hafa verið framin: morðin, nauðganirnar, barnsránin, eyðileggingin. Engar bætur, engin refsing. „Framhaldið rætt í framhaldinu.“ Af því það hefur reynst svo vel hingað til? Ofbeldið verðlaunað. Gerandanum hlíft.
Í upphafi sagði ég Ögmund meintan friðarsinna, því raunverulegur friðarsinni dekstrar ekki ofbeldisseggina eins og hann gerir í þessari grein (og öðrum áður). Ögmundur er sáttur við að verðlauna ofbeldið, stríðsreksturinn og eyðilegginguna – af því að í fílabeinsturni hans – sem varinn er af vestrænum gildum um frelsi og sjálfsákvörðunarrétt – hæðist hann að því hinu sama.
Úkraína átti ekki að vera í svona flegnum kjól, og Bandaríkin og NATO áttu ekki að selja henni kjólinn…!“ segir Friðrik Jónsson ennfremur.