Úkraínumenn óhressir með biðleiki um NATO-aðild

Úkraínumenn eru mjög óhressir með biðleiki ríkja Atlantshafsbandalagsins (NATO) með aðildarumsókn landsins að bandalaginu og lét Volodymyr Zelensky forseti landsins óánægju sína skýrt í ljós á leiðtogafundi NATO sem hafinn er í Vilnius, höfuðborg Litháen.

Þær Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra og Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir utanríkisráðherra sækja fundinn af Íslands hálfu.

Jens Stoltenberg, framkvæmdastjóri NATO, hefur viðurkennt að hraða mætti umsókn Úkraínu, en vildi þó ekki gefa nein tímamörk í því samhengi. Það fer mjög í taugarnar á Úkraínu sem eiga í höggi við innrásarher Rússa.

Zelenski sagði í viðtölum við fjölmiðla í dag og tístum á Twitter, að hvorki virðist standa til að bjóða Úkraínu aðild að NATO né gera hana að aðildarþjóð. Sagt er að Joe Biden Bandaríkjaforseti leggi áherslu á að Úkraína geti ekki sótt um meðan landið á í stríði, slíkt myndi aðeins auka á spennuna sem er nóg fyrir og gefa Rússum ástæðu til að herða enn á sókn sinni inn í landið.