Umhverfislöggjöfin hér hönnuð til að hindra framgang mála og tefja nýjar framkvæmdir

Dr. Eyjólfur Árni Rafnsson, formaður Samtaka atvinnulífsins.

„Verðmætasköpun í atvinnulífinu er grundvöllur hagsældar okkar sem hér búum. Aukin verðmæti skapa grunn að betri lífskjörum allra, tryggja undirstöður velferðar, menntunar og heilbrigðis og sjá þannig til þess að við drögumst ekki aftur úr þeim þjóðum sem við best kjör búa. Því er nauðsynlegt að aðstæður og umgjörð hvetji einstaklinga til fjárfestingar í atvinnurekstri. Regluverk um atvinnulífið verður að vera samkeppnishæft við það sem best gerist. Það gengur til dæmis ekki að hér á landi séu dæmi um mun þrengri mörk um hvað teljist lítil og meðalstór fyrirtæki en í öðrum löndum einungis vegna þess að einhverjum finnist fyrirtækin vera of fá. Samræmið er hinsvegar oft ekki mikið því þessu er á stundum öfugt farið og fyrirtækjum með örfáa starfsmenn settar reglur sem einungis gilda um stærri fyrirtæki í nágrannalöndum okkar. Samnefnarinn í báðum tilfellum er íþyngjandi regluverk á atvinnulífið, þetta þarf að skoða vel, sérstaklega í ljósi þess að mikill meirihluti fyrirtækja okkar eru lítil og meðalstór,“ sagði dr. Eyjólfur Árni Rafnsson, formaður Samtaka atvinnulífsins (SA) á ársfundi atvinnulífsins, sem haldinn var í Borgarleikhúsinu í gær.

Eyjólfur Árni sagði atvinnulífið miklar áhyggjur hafa af raforkumálum:

„Við höfum miklar áhyggjur af hægagangi í uppbyggingu nýrra orkumannvirkja. Markmið stjórnvalda um orkuskipti eru mögulega í hættu og því til viðbótar má búast við að hægja muni á almennri uppbyggingu í atvinnulífinu vegna orkuskorts ef fram heldur sem horfir. Hér er átt við bæði raforku og jarðvarma.

Það er öfugsnúið að skammta þurfi heitt vatn í kuldaköstum á höfuðborgarsvæðinu og að fiskimjölsverksmiðjur þurfi að nota jarðefnaeldsneyti þegar þær hafa komið sér upp búnaði til að nýta hreina raforku til að knýja framleiðslutæki sín.

Það má spyrja hvers vegna taki svona óhóflega langan tíma að afla leyfa til nýrra virkjana. Því miður virðist umhverfislöggjöfin hér hönnuð til að hindra framgang mála og tefja nýjar framkvæmdir í stað þess að gera góða framkvæmd betri með því að taka tillit til hagsmuna umhverfisins á hverjum stað og tíma og samfélagsins í heild,“ sagði hann ennfremur.