Hildur Sverrisdóttir, þingflokksformaður Sjálfstæðisflokksins, tekur sterkt til orða, aðspurð um viðbrögð Svandísar Svavarsdóttur matvælaráðherra á samfélagsmiðlum í morgun. Sjálfstæðismenn hafa beðið eftir útspili Vinstri grænna og ráðherrans í rúmar tvær vikur, en segja má að fjallið hafi tekið joðsótt og fæðst lítil mús, því niðurstaðan birtist í Facebook-færslu Svandísar rúmlega sjö í morgun, þar sem hún segir ekki tilefni til sérstakra viðbragða.
„Mér hefði fundist eðlilegra að ráðherra myndi svara þessu og bregðast við af meiri auðmýkt en hún gerir,“ segir Hildur á mbl.is, spurð um færslu Svandísar. Þar segist hún ósammála niðurstöðu ráðherrans um að ekki sé tilefni til sérstakra viðbragða og bætir við að sér finnist túlkun og framsetning á niðurstöðu álitsins hæpin.
Sjálfstæðismenn ætla nú að funda um viðbrögð ráðherra, enda liggur fyrir að vantrausttillaga á Svandísi kemur til kasta Alþingis í vikunni.
En í frétt mbl.is um málið segir ennfremur:
„Hildur segir augljóst öllum að umrætt mál hefur skaðað traust milli þingflokks sjálfstæðisflokksins og viðkomandi ráðherra gríðarlega mikið alveg síðan síðasta sumar. Aðspurð segir hún þessi viðbrögð ráðherrans ekki að hjálpa í þeim efnum.“