Samband ungra sjálfstæðismanna telur að leggja eigi kærunefnd útlendingamála og vilja koma á fót sams konar umsóknarkerfi fyrir umsækjendur um alþjóðlega vernd og fyrirfinnst annars staðar á Norðurlöndunum. Þeir umsækjendur um alþjóðlega vernd sem hafa fengið synjun um hæli og eiga ekki samvinnu við yfirvöld, skuli sæta vistun í búsetuúrræði með takmörkunum þar til unnt er að vísa þeim af landi brott. SUS fagnar frumvarpi nokkurra þingmanna Sjálfstæðisflokksins um fækkun nefndarmanna í kærunefnd útlendingamála úr sjö í þrjá og gera nefndina faglegri í störfum sínum. Raunar vill kærunefnd útlendingamála verði lögð niður og að í framhaldinu ráðist stjórnvöld í heildræna endurskoðun á fyrirkomulagi úrskurðarnefnda hins opinbera.
„Það er ótækt að úrskurðarnefndir sem ekki eru skipaðar kjörnum fulltrúum myndi eftir atvikum stefnu hins opinbera í ákveðnum málaflokkum, má þar nefna kærunefnd útlendingamála sem dæmi, og stöðvi ítrekað aðgerðir í öðrum málaflokkum, t.d. í tilfelli úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála. Kjörnir fulltrúar bera ábyrgð á því að móta stefnu og að framkvæma hana.“
Þetta er meðal þess sem fram kemur í stjórnmálaályktun 47. sambandsþings Sambands ungra Sjálfstæðismanna (SUS) sem samþykkt var dagana 15.-17. september á Hótel Selfossi. Á þriðja hundrað kjörbréf voru send út fyrir þingið en hátt í 200 manns mættu til þess.
Viktor Pétur Finnsson var kjörinn formaður sambandsins, Steinar Ingi Kolbeins var endurkjörinn í embætti 1. varaformanns og Gunnlaug Helga Ásgeirsdóttir var kjörin í embætti 2. varaformanns. Viktor Pétur tekur við embætti formanns af Lísbet Sigurðardóttur.
Í deiglunni á sambandsþinginu voru mörg mál en fyrirferðamest voru menntamál, útlendingamál og heilbrigðismál. Meðal þess sem finna má í stjórnmálaályktuninni er:
Menntamál
Fjölga þarf sjálfstætt reknum menntastofnunum á leik- og grunnskólastigi. Taka skal upp ávísanakerfi, þar sem skattfé fylgir hverjum nemanda, til að bæta menntun barna og auka valfrelsi foreldra. Þetta myndi einnig bæta starfsaðstæður og kjör kennara.
Auka þarf frelsi nemenda í grunnskólum með því að vinna betur að styrkleikum hvers og eins og styðja við þá. Með því að auka vægi valáfanga finna börn fyrir eigin styrkleikum og áhugamálum og endast þannig lengur í námi.
Leita þarf lausna við þeim vanda sem nú blasir við í leikskólamálum víðsvegar á landinu, sérstaklega í höfuðborginni. Koma þarf til móts við foreldra eftir að fæðingarorlofi lýkur og stytta biðtímann milli orlofs og inngöngu barna leikskóla.
Ráðast þarf í endurskoðun á tilgangi og starfi menntasjóðs námsmanna.
SUS er mótfallið þeim áætlunum mennta- og barnamálaráðherra um sameiningu framhaldsskóla sem kynntar hafa verið. SUS er sérstaklega mótfallið vinnubrögðum ráðherra í áætlaðri sameiningu MA og VMA. Stórar ákvarðanir sem þessar verða að vera teknar í samráði við nemendur. Nauðsynlegt er að breytingar sem þessar, verði þær að veruleika, bæti gæði náms og aðstöðu nemenda. Aukið samstarf gæti verið af hinu góða sé rétt að málum staðið.
Staða ungs fólks
SUS telur að bregðast verði við versnandi stöðu ungs fólks í íslensku samfélagi. Auðvelda þarf ungu fólki að fóta sig í lífinu þegar barnsaldri sleppir, en við núverandi efnahagsástand fara tækifæri ungs fólks til sjálfstæðis hratt þverrandi þar sem alvarlegur húsnæðisskortur og íþyngjandi kröfur til lántöku vega þungt. Ekki sé ásættanlegt að hagsmunum ungs fólks sé jafn léttilega fórnað af stjórnvöldum og öðrum aðilum eins og raun ber vitni svo sem með aukinni opinberri skuldsetningu, í kjarasamningagerð, í aðgerðum Seðlabanka Íslands og með skorti á leikskólavist. Ljóst er að stefni í óefni ef ekki verði gripið til aðgerða.
Vinna þarf að því að auðvelda ungu fólki að eignast eigið húsnæði með auknu framboði og lægri vöxtum.
Mannréttindi
SUS telur að vinna þurfi gegn núverandi bakslagi í réttindabaráttu hinsegin fólks með upplýstri og staðreyndamiðaðri umræðu ásamt fræðslu. Telur félagið enn fremur þarft að stíga áfram skref sem tryggja jöfn réttindi og jafna aðstöðu hinsegin fólks í hvívetna. Ísland á að vera í fararbroddi þegar kemur að réttindum hinsegin fólks.
Efnahags og viðskiptamál
Verðbólga hefur reynst þrálátari en vonir stóðu til um. Ríki, sveitarfélög, aðilar vinnumarkaðarins og Seðlabankinn verða að snúa bökum saman í baráttunni við þennan sameiginlegan óvin allra landsmanna til þess að koma í veg fyrir að kynslóðin sem er að vaxa úr grasi kynnist víxlhækkun launa og verðlags á eigin skinni.
SUS vill afnema banka-og fjársýsluskatt, skuldsettum heimilum og fyrirtækjum til heilla.
SUS vill minnka umsvif ríkisins með því að leggja niður stofnanir. Jafnframt með því að selja ríkiseignir eða gefa landsmönnum öllum jafnan hlut í þeim fyrirtækjum sem ríkið á, t.d. á bankamarkaði.
SUS leggst gegn því að ríkið veiti fjárframlög til sjálfstæðra fjölmiðla og fjölmiðla í ríkiseign.
Utanríkismál
SUS telur að hagsmunagæsla Íslands hafi ekki verið nógu góð við innleiðingu löggjafar ESB er varðar losunarheimildir í flugi og skipaflutningum.
SUS vill að Ísland taki skýra afstöðu á alþjóðavettvangi gegn þeim sem ekki virða landamæri og fullveldi annarra ríkja.
SUS fordæmir innrás Rússlands í Úkraínu og fagnar lokun íslenska sendiráðsins í Moskvu.
Atvinnuvegamál
SUS telur ógrynni tækifæra liggja í uppbyggingu fiskeldis á Íslandi. SUS lýsir þó yfir áhyggjum af strokulöxum og áhrifum þess á villta íslenska laxastofninn. Auka þarf eftirlit í samræmi við stækkun greinarinnar. Einfalda og bæta þarf stjórnsýslu í innleiðingarferli og leyfisveitingum í fiskeldi. Þar sem fiskeldi í sjó hefur áhrif á náttúru og dýralíf, sem og eignarrétt annarra aðila, skal einungis ráðist í frekari uppbyggingu í fyllsta samræmi við umhverfi, lög og vísindi.
SUS vill að Ísland stefni að því að vera miðpunktur orkusækins iðnaðar og laði til sín t.d. gagnaver, hátækni matvælaframleiðslu, rafhlöðuframleiðslu o.fl. með samkeppnishæfu raforkuverði.
SUS vill standa vörð um aflamarkskerfið og tryggja stöðugleika í rekstrarumhverfi sjávarútvegs til að styðja áframhaldandi vöxt á grundvelli sjálfbærrar nýtingu auðlinda.
SUS leggur áherslu á að tekin verði upp aðgangsstýring á fjölförnum ferðamannastöðum með gjaldtöku til þess að byggja upp og veita þjónustu. Bjóða skal út rekstur ferðamannastaða í ríkiseigu.
SUS vill afnema einokunarsölu ríkisins á áfengi og hömlur á sölu lausasölulyfja.
SUS leggur til að ÁTVR og RÚV verði lagt niður.
SUS telur nauðsynlegt að einfalda byggingarreglugerð og annað regluverk í tengslum við uppbyggingu húsnæðis til að lækka byggingarkostnað.
Umhverfismál
SUS telur að mikilvægasta aðgerðin í loftslagsmálum séu græn orkuskipti.
SUS vill endurskoða hlutverk, samsetningu og verðskrá Úrvinnslusjóðs m.t.t. fjárhagslegra hvata til að minnka kolefnisspor og styrkja innlenda virðiskeðju.
SUS telur mikilvægt að einfalda regluverk og leyfisveitingarferli þegar kemur að grænni orkuöflun. Nýsköpun og hugvit eru lykillinn að velgengni í loftslags,- og orkumálum.
Samgöngumál
SUS leggur áherslu á að samgöngusáttmáli höfuðborgarsvæðisins verði endurskoðaður í heild. Tryggja þarf frelsi einstaklingsins til að velja samgöngumáta, enginn einn samgöngumáti má þrengja að öðrum.
SUS leggur áherslu á að ráðist sé í fleiri innviðaverkefni í samstarfi hins opinbera og einkaaðila. Þannig er hægt að ráðast í fleiri innviðaverkefni enn ella og stuðla í leiðinni að fjölgun starfa og auknum hagvexti.
Heilbrigðis- og velferðarmál
SUS vill auka skilvirkni og hagkvæmni í heilbrigðismálum á sama tíma og starfsaðstæður eru bættar og þjónusta efld. Fé skal fylgja hverjum einstaklingi líkt og á öðrum Norðurlöndum. Ganga þarf úr skugga um að skattfé almennings sé vel varið og biðlistar styttir. Auka þarf samkeppni um heilbrigðisstarfsfólk svo hægt sé að bæta kjör þess til muna og auka valfrelsi á vinnustað.
Einkarekstur í heilbrigðiskerfinu mun stuðla að samkeppni sem eykur bæði skilvirkni og gæði þjónustu sem sjúklingurinn fær og bæta starfsaðstæður. Andleg heilsa skal falla undir heilbrigðiskerfið sem og fíknisjúkdómar.
Fjölga þarf einkareknum heilsugæslum út um allt land til að mismuna fólki ekki um góða heilbrigðisþjónustu.
Stjórnskipunarmál
Stjórnarskráin er grundvöllur stjórnskipunar landsins. Allar breytingar á henni skal nálgast af yfirvegun og skynsemi.
Landsdómur skal lagður niður. Hæstiréttur myndi taka við því hlutverki sem Landsdómur sinnir nú.