Utanríkisráðherra ætlar aftur að taka slaginn með frumvarpið um bókun 35

Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, fjármálaráðherra og varaformaður Sjálfstæðisflokksins. Ljósmynd fyrir Viljann: Rúnar Gunnarsson.

Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir utanríkisráðherra hyggst leggja fram að nýju frumvarp til laga um breytingar á EES-samningnum, eða svonefnda bókun 35. Málið náði ekki fram að ganga á vorþingi og er umdeilt meðal þingmanna, jafnt í stjórnarliðinu sem og stjórnarandstöðu.

„Með frumvarpinu er ætlunin að gera nauðsynlegar breytingar til þess að breyta innleiðingu bókunar 35 við EES samninginn og tryggja fulla virkni hans hér á landi í þágu einstaklinga og lögaðila,“ segir í útskýringartexta frá utanríkisráðuneytinu.

Bókun 35 er svohljóðandi: „Vegna tilvika þar sem getur komið til árekstra á milli EES-reglna sem komnar eru til framkvæmdar og annarra settra laga, skuldbinda EFTA-ríkin sig til að setja, ef þörf krefur, lagaákvæði þess efnis að EES-reglur gildi í þeim tilvikum.“

Meðal þeirra sem komu að samningu frumvarpsins, fyrir hönd utanríkisráðherra, er Sigríður Á. Andersen, lögmaður og fv. dómsmálaráðherra. Eins og fram kom í Viljanum á dögunum, sagði hún að loknum flokksráðsfundi Sjálfstæðisflokksins, að það verði Sjálfstæðisflokknum mjög þungt, ætli utanríkisráðherra að leggja frumvarpið fram að nýju.

Sigríður Á. Andersen fv. dómsmálaráðherra. / Viljinn: Rúnar Gunnarsson.

Muni það krefjast þess að þingmenn flokksins, allir sem einn, ekki bara utanríkisráðherrann, setji sig inn í málið og tali fyrir því af sannfæringu, ef menn hafa þá sannfæringu fyrir því.

Sigríður Á. Andersen sat í hóp sem utanríkisráðherra skipaði til að skrifa frumvarpið, en hafnaði því að vera höfundur þess. „Það er alls ekki þannig, ég sat í hópi sem utanríkisráðherra skipaði til að semja þetta frumvarp að því efni sem ráðherrann sjálfur valdi,“ sagði hún og bætti við: „Ráðherrann ber sjálfur eins og ætíð ábyrgð á sínum eigin frumvörpum og ég hef ekki farið í neinar grafgötur með það að mér finnst þetta ekki gott mál, ekki gott þingmál. Það náði ekki fram að ganga á síðasta þingi, eins og ég hafði spáð, og ég myndi sjálf sem ráðherra aldrei leggja fram svona mál.“