Utanríkisráðherra Rússa hefur áhyggjur af hnignun blaðamennsku

Sergei Lavrov, utanríkisráðherra Rússa.

Sergei Lavrov, utanríkisráðherra Rússa, efndi til árlegs blaðamannafundar í gær, miðvikudaginn 16. janúar. Þar sakaði hann Bandaríkjastjórn um að vilja leysa upp klasa afvopnunarsamninga. Hann sagði rússnesk stjórnvöld reyna að halda í samninginn um bann við meðaldrægum kjarnavopnum (INF-samninginn).

Ráðherrann veittist hvað eftir annað að Bandaríkjamönnum enda eru samskipti Rússa við þá erfið um þessar mundir.

„Einhliða aðgerðir stjórnarinnar í Washington sem miða að því að eyðileggja mjög mikilvæga alþjóðlega samninga sem stuðla að strategískum stöðugleika hafa ekki aukið bjartsýni,“ sagði Lavrov.

Að sögn ráðherrans hefði þetta „komið mjög greinilega fram“ í viðræðum um INF-samninginn nú í vikunni í Genf. Þar hefðu Bandaríkjamenn haft að engu skýringar Rússa á flugskeyti sem að sögn Bandaríkjamanna stenst ekki INF-samninginn frá árinu 1987.

Mike Pompeo, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, sagði í byrjun desember að Bandaríkjastjórn ætlaði að segja sig frá INF-samningnum ef Rússar tækju ekki niður flaugina sem þeir segja að brjóti gegn samningnum.

Eftir viðræðurnar í Genf þriðjudaginn 15. janúar sagði háttsettur bandarískur embættismaður að Rússar gerðust enn sekir um efnisleg brot á samningnum og þeir yrðu að eyðileggja vopnakerfin sem brytu gegn honum.

Lavrov áréttaði fullyrðingar Rússa um að ný flaug þeirra, 9M729, bryti ekki gegn samningnum. Hann hvatti ríkisstjórnir Evrópulanda til að leggja Rússum lið við að halda lífi í INF-samningnum. Þær ættu að beita sér gagnvart Bandaríkjastjórn.

Pútín Rússlandsforseti.

Lavrov áréttaði að Japanir yrðu að viðurkenna „niðurstöður“ síðari heimsstyrjaldarinnar ef þeir vildu koma skriði á gerð friðarsamnings við Rússa og hugsanlegs samnings um að tvær af fjórum umdeildum Kyrrahafseyjum færu undir stjórn Japana.

Hann fullyrti að Rússar hefðu ekki sett neina úrslitaskosti. Krafa þeirra jafngildir hins vegar því að Japanir verði að viðurkenna rússnesk ráð yfir eyjunum sem Rússar kalla Suður-Kúrileyjar en Japanir Norðursvæðin.

Talið er að þetta mál beri hátt þegar Vladimir Pútín Rússlandsforseti hittir Shinzo Abe, forsætisráðherra Japans, í Moskvu þriðjudaginn 22. janúar.

Sergei Lavrov hefur verið utanríkisráðherra Rússlands frá því að Vladimír Pútín var kjörinn forseti í annað sinn árið 2004. Hann heldur árlegan blaðamannafund í janúar til að ræða það sem gerðist á gamla árinu og lýsa stefnu varðandi álitaefni á sviði utanríkismála í upphafi nýs árs.

Blaðamenn sem sátu fundinn að þessu sinni sögðu að hann hefði verið sama marki brenndur og fyrri fundir. Rætt hefði verið um fortíðina en lítið sem ekkert um framtíðina. Engar marktækar yfirlýsingar hefðu verið gefnar.

Lavrov dró í efa lögmætið að baki því að breyta nafni Makedóníu til að gera þjóðinni kleift að ganga í NATO og ESB. Rússar eru því andvígir að tekið sé upp nafnið Lýðveldið Norður-Makedónía.

Utanríkisráðherrann fullyrti að Vestmenn væru helteknir af „æði“ sem miðaði að því að „ýta öllum Balkanríkjum inn í NATO eins hratt og verða má“ og lýsti andstöðu við að Bosnía-Herzegóvína færi í bandalagið en þar er að finna héraðið Republika Srpska og eru fjölmargir Serbar búsettir í því.

Lavrov gagnrýndi einnig fullyrðingar um að Donald Trump Bandaríkjaforseti hefði látið rússneska hagsmuni vegna þyngra en hagsmuni Bandaríkjanna. Að því væri haldið fram í bandarískum fjölmiðlum að Trump væri „útsendari Rússa“ sýndi aðeins „hnignun blaðamennsku“ í Bandaríkjunum.

Frá því var skýrt í The New York Times á dögunum að bandaríska alríkislögreglan, FBI, hefði árið 2017 tekið til við að rannsaka hvort Trump starfaði í þágu Rússa. Tilefnið var að forsetinn rak James Comey, forstjóra FBI, úr embætti sínu. Trump sagði mánudaginn 14. janúar að hann hefði „aldrei unnið fyrir Rússa“. Fullyrðingar í þá veru væru ekki annað en „risavaxin blekking“.

Þegar Lavrov var spurður hvort Rússar myndu birta frásagnir af tveggja manna fundum Trumps og Pútins hafnaði hann því. Það bryti í bága við góða hætti í samskiptum ríkja auk þess sem tilmæli af þessu tagi mætti skoða sem ólögleg afskipti af stjórnarskrárbundnum rétti Bandaríkjaforseta til afskipta af utanríkismálum.

Um stöðuna í samskiptum Breta og ESB eftir að breska þingið kolfelldi tillögu Theresu May forsætisráðherra þriðjudaginn 15. janúar sagði Lavrov að Rússar „néru ekki saman höndum af ánægju“ vegna þessa. Virtist hann með þessu vilja slá á réttmæti frásagna um að sundrung í vestri gleddi Rússa. Hann sagði Rússa vilja sterkt og sameinað ESB.

Blaðamannafundurinn stóð í tæpa tvo og hálfan tíma. Það vakti athygli að tvisvar var útsending hans í ríkissjónvarpinu rofin fyrirvaralaust með auglýsingum, í annað skiptið þegar Lavrov var í miðri setningu. Þetta hefur ekki gerst áður á þessum árlega fundi Lavrovs og gerist ekki þegar Vladimir Pútín heldur árlegan blaðamannafund sinn í desember. Í fyrra stóð fundur Pútíns í þrjá tíma og fjörutíu og fjórar mínútur án hlés.

Heimild: RFE/RL. Af vardberg.is, birt með leyfi.