Þrír þingmenn Sjálfstæðisflokksins leggja til að Útlendingastofnun verði flutt til Reykjanesbæjar. Flutningsmenn þingsályktunartillögu þar að lútandi eru þingmennirnir Birgir Þórarinsson, Ásmundur Friðriksson og Vilhjálmur Árnason.
Tillagan hljóðar svo: „Alþingi ályktar að stefna skuli að flutningi Útlendingastofnunar til Reykjanesbæjar.“
Útlendingastofnun er ein af undirstofnunum dómsmálaráðuneytisins og starfar samkvæmt löggjöf um málefni útlendinga. Umfangsmesti þáttur í starfsemi Útlendingastofnunar er útgáfa dvalarleyfa, hvort sem um er að ræða dvalarleyfi á grundvelli atvinnuþátttöku eða t.d. fjölskyldusameiningar, námsvistar eða vistráðningar, og afgreiðsla umsókna um alþjóðlega vernd og umsókna um íslenskan ríkisborgararétt.
„Stofnunin er til húsa á Dalvegi 18 í Kópavogi og vinna þar um rúmlega 80 manns. Mikill meiri hluti opinberra stofnana er á höfuðborgarsvæðinu, eins og við þekkjum. Af því leiðir að störf flestra stofnana standa í raun einungis íbúum höfuðborgarsvæðisins til boða. Með flutningi Útlendingastofnunar til Reykjanesbæjar væri tekið stórt skref í átt að því að tryggja fjölbreytt atvinnutækifæri utan höfuðborgarsvæðisins.
Á Suðurnesjum er hlutfall háskólamenntaðra mun lægra en landsmeðaltal. Mikill meiri hluti starfa hjá Útlendingastofnun eru sérfræðistörf sem krefjast háskólamenntunar. Með flutningi stofnunarinnar til Reykjanesbæjar væri því sérfræðistörfum fjölgað og hlutfall háskólamenntaðra á svæðinu bætt. Þar að auki býr fjöldi innflytjenda á Suðurnesjum sem nýtir sér þjónustu stofnunarinnar, en um 9% íbúa bæjarins eru af erlendum uppruna. — Ég held að þessi tala sé ekki rétt, ég held að hlutfallið sé hærra af íbúum bæjarins og leiðréttist það hér með.
Þá er rétt að líta til þess að yfirgnæfandi meiri hluti þeirra sem sækjast eftir alþjóðlegri vernd kemur til landsins í gegnum Keflavíkurflugvöll og því er væri hentugt að stofnunin væri í meiri nálægð við flugvöllinn. Jafnframt hefur velferðarsvið Reykjanesbæjar séð um þjónustu og aðbúnað þeirra sem sækja um alþjóðlega vernd á Íslandi síðan árið 2004 og var fyrsta sveitarfélagið til að bjóða upp á þá þjónustu.
Fólksfækkun á landsbyggðinni vegna flutninga til höfuðborgarsvæðisins hefur um langa hríð verið eitt af meginvandamálum samfélaga á landsbyggðinni og jafnframt skortur á störfum og lítil fjölbreytni starfa. Þetta þekkjum við. Aukinn fjöldi og fjölbreytni starfa utan höfuðborgarsvæðisins eykur líkurnar á því að fólk af landsbyggðinni, sem sækir sér menntun á höfuðborgarsvæðinu, snúi aftur til heimabæjar síns eftir að námi lýkur og laðar fremur að nýja íbúa.
Í skýrslu Félagsvísindastofnunar Háskóla Íslands um samfélagsgreiningu á Suðurnesjum frá 8. október 2021 kemur fram að atvinnulíf á Suðurnesjum sé einhæft og framboð atvinnu takmarkað. Þá kjósi margir íbúar svæðisins að starfa í Reykjavík þar sem fleiri möguleikar og fjölbreyttara úrval starfa sé í boði. Atvinnulífið í Reykjanesbæ er að miklu leyti háð flugsamgöngum og ferðaþjónustu og lítið er um sérfræðistörf á öðrum sviðum. Flutningur Útlendingastofnunar til sveitarfélagsins myndi því ótvírætt fela í sér nauðsynlega fjölbreytni vinnumarkaðarins á Suðurnesjum.
Atvinnumöguleikar ráða óneitanlega miklu þegar einstaklingar ákveða hvar skal búa, en þeir möguleikar eru umtalsvert minni í Reykjanesbæ en á höfuðborgarsvæðinu og bera opinberar tölur um atvinnuleysi það skýrlega með sér.
Það má nefna að 2021 var ætlað atvinnuleysi á höfuborgarsvæðinu um 5% en á sama tíma var atvinnuleysi í Reykjanesbæ 10%. Árið 2022 var atvinnuleysið 3,6% á höfuðborgarsvæðinu en rétt tæp 5% í Reykjanesbæ. Í apríl á þessu ári var atvinnuleysið þar 4,6% og minnkaði því aðeins. Atvinnuleysi hefur því nokkur ár aftur í tímann verið töluvert meira á Suðurnesjum en á höfuðborgarsvæðinu. Þetta misræmi í atvinnuleysi á milli bæjarfélaga er óheppilegt og það er því nauðsynlegt að reyna að bregðast við því með einhverjum hætti og auka framboð á fjölbreyttari atvinnu í Reykjanesbæ eins og hér er lagt til.
Það er svo sem sjónarmið í þessu að það kannski fylgir því eitthvert óhagræði ef núverandi starfsmenn Útlendingastofnunar, sem búa á höfuðborgarsvæðinu, þurfi þá að sækja starfsemina til Reykjanesbæjar. En það verður að teljast ekki sérlega íþyngjandi fyrir þá sem ferðast þá til Reykjanesbæjar að rétt eins og það er fjöldi af fólki sem ferðast til Reykjavíkur og sækir vinnu í Reykjavík. Það er margt jákvætt við þessa tillögu að mínu mati og mikilvægt að Suðurnesin fái eitthvað af opinberum störfum sem krefjast háskólamenntunar,“ sagði Birgir Þórarinsson í ræðu á þingi á dögunum, þegar tillagan kom til umræðu.