Vafamál að siðareglur þingmanna taki til Klaustursmáls

Jón Steinar Gunnlaugsson, fv. hæstaréttardómari.

„Þessar reglur eru ekki vel samdar,“ segir Jón Steinar Gunnlaugsson fv. hæstaréttardómari, í samtali við Viljann, aðspurður um hvort framganga sex þingmanna á veitingastaðnum Klaustri í nóvember síðastliðnum geti fallið undir siðareglur þingsins.

Í 1. og 2. gr. siðareglnanna segir:

Siðareglur þessar taka til alþingismanna og starfa þeirra og fela í sér viðmið um hátterni þeirra sem þjóðkjörinna fulltrúa. Tilgangur þeirra er að efla gagnsæi í störfum alþingismanna og ábyrgðarskyldu þeirra, svo og tiltrú og traust almennings á Alþingi.

Reglur þessar gilda um alþingismenn við opinbera fram­göngu þeirra og snerta skyldur þeirra sem þjóðkjörinna fulltrúa.

Jón Steinar segir vafa koma upp við túlkun siðareglnanna, til að mynda sé hægt að velta fyrir sér hvað teljist vera opinber framganga.

Hægt að túlka út og suður

„Þingmennirnir voru staddir í veitingahúsi sem opið var fyrir almenning og töluðu svo hátt að gestir á staðnum gátu heyrt til þeirra. Er það „opinber framganga“? Ákvæði 1. gr. reglanna um gagnsæi og tilganginn um að efla tiltrú og traust gætu mælt með rúmri túlkun á 2. gr., þó að á hinn bóginn megi efast um að samtöl þeirra geti talist falla undir „opinbera framgöngu“ þeirra og snert skyldur þeirra sem þjóðkjörinna fulltrúa.

Líklega á almennt að túlka reglur sem kveða á um svona hátternisskyldur þolendum (þingmönnunum) í hag.

Vandinn við illa samdar reglur þar sem ákvæði eru opin og vandskýrð er ekki síst sá að úrskurðaraðilar geta oft túlkað þær út og suður að vild.

Með vísun til þess arna treysti ég mér ekki til að svara spurningunni með neinum afdráttarlausum hætti. Ef ég ætti að úrskurða um þetta myndi ég telja að reglurnar ættu ekki við,“ segir Jón Steinar Gunnlaugsson.