Einangrun Vinstri grænna, sem fer með forystu í ríkisstjórn landsins, jókst enn frekar með aðsendri grein Jóhanns Páls Jóhannssonar, þingmanns Samfylkingarinnar, í dag þar sem segir það „meirihlutaskoðun á Alþingi að rjúfa þurfi kyrrstöðuna sem hefur ríkt í orkumálum á undanförnum árum“.
Viðtal Viljans við Jón Gunnarsson, þingmann Sjálfstæðisflokksins og fv. ráðherra, rétt fyrir áramót vakti mikla athygli og varð drjúgt umræðuefni leiðtoga stjórnmálaflokkanna í þættinum Kryddsíld á Stöð 2 á gamlársdag. Jón hjó svo enn í sama knérunn í viðtali við Bítið á Bylgjunni í morgun þar sem hann sagðist ekki bera traust til ríkisstjórnarinnar og hún væri einfaldlega komin á endastöð.
„Ég hef ekki sagt neitt annað en það sem augljóst er og allir þekkja sem fylgjast með þessari pólitík. Í þessu ríkisstjórnarsamstarfi þá finnst mér ekki mikið erindi eftir fyrir þessa ríkisstjórn eftir að tekist hefur að ljúka viðræðum við aðila vinnumarkaðarins og tekist að ljúka tímamótasamningum. Þá verðum við að geta haldið áfram,“ er haft eftir honum í frétt Vísis um málið.
Forystumenn Miðflokksins og Viðreisnar hafa undanfarið skorað á Sjálfstæðisflokk og Framsóknarflokk að rjúfa kyrrstöðuna í orkumálunum og boðið liðsinni sitt í þeim efnum í þinginu.
Og Jóhann Páll úr Samfylkingu segir á Vísi ljóst að þingmenn stjórnarmeirihlutans „dauðskammist sín margir hverjir fyrir framtaksleysið í orkumálum og þær alvarlegu afleiðingar sem því fylgja“. Bendir hann á að leikreglur rammaáætlunar snúist um að sætta ólík sjónarmið og leita jafnvægis milli orkunýtingar og náttúruverndar. En þær kalli líka á að teknar séu ákvarðanir og þeim fylgt eftir með afgerandi hætti. „Undir þeirri ábyrgð verða stjórnmálamenn og stjórnmálaflokkar að rísa,“ segir hann.