„Við höfum breytt Samfylkingunni og náð aftur virkari tengingu við venjulegt fólk“

„Við í Samfylkingunni völdum breytingar — og við höfum fylgt ákveðinni áætlun síðastliðið ár. Við höfum breytt Samfylkingunni: Við höfum náð aftur virkari tengingu við venjulegt fólk, hinn almenna launamann. Við höfum brotist út úr bergmálshellinum. Og eins og við sögðum — þá höfum við gert það að meginverkefni flokksins að opna starfið upp á gátt; færa málefnavinnu nær almenningi um land allt með því að hleypa öllum að og halda fleiri tugi opinna funda — þar sem fólk innan og utan flokks er hvatt til að mæta til leiks,“ sagði Kristrún Frostadóttir, formaður Samfylkingarinnar, í ræðu sinni á fundi flokksráðs í Hofi á Akureyri í gær.

Hún undirstrikaði þær breytingar sem orðið hafa á flokknum og stefnu hans eftir að hún varð formaður, en samkvæmt skoðanakönnunum mælist nú Samfylkingin með langmest fylgi allra flokka hér á landi.

„Við sögðum að við myndum ekki elta skoðanakannanir eða þá sem hafa hæst á samfélagsmiðlum. Og allt hefur þetta staðið eins og stafur á bók. Staðreyndin er þessi: Það gengur allt samkvæmt áætlun hjá Samfylkingunni. Og við ætlum að halda áfram á sömu braut,“ sagði Kristrún og bætti við: „Þó að allt gangi samkvæmt áætlun hjá Samfylkingunni og þó að skoðanakannanir bendi til þess að fólkið í landinu hafi miklar væntingar til okkar — þá vitum við öll vel að núna er ekki rétti tíminn til að ofmetnast eða halla sér aftur. Við tökum engu sem gefnu. Og við ætlum ekki að gera sömu mistökin og aðrir stjórnarandstöðuflokkar, sem hafa mælst vel á miðju kjörtímabili en svo mistekist að ávinna sér traust þjóðarinnar í raun þegar á hólminn var komið.

Við ætlum ekki að lofa öllu fögru. Við ætlum ekki að fara fram með ósamrýmanleg markmið. Og við ætlum ekki að sóa tíma í einhvern pólitískan æsing. Það er þess vegna sem við erum að undirbúa okkur og taka þetta málefnastarf svona alvarlega. Eitt skref í einu. Allt samkvæmt áætlun.“