„Við sem stöndum á gólfinu erum orðin þreytt á pólitískum loforðum“

Staðan í heilbrigðiskerfinu verður mörgum umræðuefni þessi dægrin; langur biðtími eftir því að komast til læknis, að ekki sé rætt um sérfræðings, er orðin þjóðarskömm og flestir þekkja sögur úr sínu nærumhverfi af upplifun fólks af ófullnægjandi þjónustu heilbrigðiskerfisins.

Ein ríkasta þjóð veraldar á auðvitað að geta gert svo miklu, miklu betur. Á Norðurlöndum, þar sem kratar ráða oftast ríkjum, hefur fyrir löngu verið mörkuð leið blandaðs rekstrar í heilbrigðisþjónustu sem þýðir að þjónusta einkarekinna fyrirtækja er nýtt öllum til hagsbóta. En á Íslandi hefur kredduhugsun allt of lengi ráðið för; miðstýringaráttan er landlæg og flest verkefni, stór eða smá, eiga að fara gegnum Landspítalann, ef marka má starfsmenn hans sem tjá sig frjálslega í opinberri umræðu og finna flestu einkaframtaki flest til foráttu. Þá er auðvitað mjög sérstakt, svo pent sé orðað, að beitt sé jafn miklum fjöldatakmörkunum í læknanám og raun ber vitni, þegar skortur er á læknum og þróunin öll á verri veg.

Í þessu ljósi er sérlega forvitnilegt, að kynna sér umsögn Heilsugæslunnar Kirkjusandi um tillögu Samfylkingarinnar til þingsályktunar um þjóðarmarkmið um fastan heimilislækni og heimilisteymi. Sá sem skrifar hana er reyndur heimilislæknir og fv. borgarlæknir, Oddur Steinarsson, sem einnig hefur verið framkvæmdastjóri heilsugæslu í Svíþjóð og veit því vel hvað hann er að tala um.

Grípum niður í umsögn Odds:

„Heilsugæslan Kirkjusandi (áður Lágmúla) er elsta sjálfstætt starfandi heilsugæslustöð landsins og verið starfandi frá 1986. Í rekstri hennar gegnum tíðina hefur endurtekið komið upp óvissa af hendi viðsemjenda. Tvisvar sinnum hefur öllu starfsfólki stöðvarinnar verið sagt upp og stefnt í lokun. Stöðin hefur undanfarin tvö ár framlengt samning um rekstur tímabundið um átta sinnum. Við fögnum mjög tillögu um þingsályktun um heilsugæsluna og heimilislækna. Undanfarin ár hefur verkefnum verið bætt á heilsugæsluna og lækna hennar án þess að meta á nokkurn hátt getu hennar til að taka við öllum þeim verkefnum. Jafnframt hefur skort mikið á samráð milli þeirra sem veita þjónustuna og yfirvalda.“

Óravegu frá markmiðum nágrannalanda okkar

Oddur Steinarsson sérfræðingur í heimilislækninum.

Og ekki bætir úr skák, þegar Oddur lýsir læknaskortinum sem flestir þekkja of vel:

„Ljóst er að Heilsugæslan er mjög undirmönnuð og eru nú á höfuðborgarsvæðinu um 100 setin stöðugildi heimilislækna og 255 þúsund skráðir skjólstæðingar. Þetta er óravegu frá markmiðum nágrannalanda okkar. Þetta gerir um einn sérfræðing á tæplega 2600 skráða í dag. Þar sem mönnunin er verst, er einn heimilislæknir á um 5000 skráða. Viðmið Félags Íslenskra Heimilislækna er 1200 skráðir skjólstæðingar á lækni í fullu starfi í þéttbýli. Þau viðmið eru jafnframt mjög hógvær eins félaginu er jafnan tamt.

Ef við skoðum viðmið í nágrannalöndunum, þá eru viðmið Svía 1100 skráðir á lækni og þar er til dæmis eftirfylgd ADHD lyfjameðferðar ekki á höndum þeirra. Norðmenn miða við 1000-1200 skráða á lækni og Danir hafa verið að lækka töluna í 1300-1500 skráða á lækni. Stór samlög hafa verið tengd við skert aðgengi, minni samfellu þjónustu, verri frammistöðu í forvörnum, minni heilsueflingu og lakari eftirfylgd langvinnra sjúkdóma. Samkvæmt rannsóknum er ,,gullin tala” á bilinu 1000-1500 skráðir skjólstæðingar á lækni.

Við viljum því leggja til að viðmiðið 1200 á lækni verði notað í þéttbýli. Þá sé viðmiðið lægra í dreifbýli, eða 800 á lækni. Jafnframt hefur orðið sú breyting á að margir læknar velja að vinna hlutastöðu. Þannig má áætla að heimilislæknar á landsvísu þyrftu að vera á bilinu 400-600 til þess að manna landið vel, en þeir eru tæplega 200 í dag.

Við sem stöndum á gólfinu erum orðin þreytt á pólitískum loforðum og vonum að raunveruleg styrking verði. Fjármagna þarf heilsugæsluna í takt við launaþróun, verkefni og mönnunarþörf. Fjármagna sérnámið almennilega. Endurskoða komugjöld, önnur gjöld og fjárstýringar. Forgangsraða þarf síðan strax til að vernda þann mannskap sem stendur vaktina nú.“