Vill bregðast nú þegar við ófremdarástandi í sorphirðu í borginni

Kjartan Magnússon, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins, tók sorphirðumál til umfjöllunar í gær á fyrsta fundi umhverfis- og skipulagsráðs Reykjavíkur eftir sumarleyfi og lagði fram tillögur og fyrirspurn fyrir hönd borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins.

Í samtali við Viljann kveðst hann telja þessar tillögur nauðsynlegar í ljósi þess ófremdarástands í sorphirðumálum í Reykjavík, sem ríkt hefur í vikur og mánuði á sama tíma og verið er að koma á nýju sorpflokkunarkerfi í borginni.

A. Tillaga fulltrúa Sjálfstæðisflokksins

Lagt er til að nú þegar verði brugðist við því ófremdarástandi, sem ríkir í sorphirðu í Reykjavík. Stóraukinn kraftur verði settur í hirðu heimilissorps þar til tekist hefur að vinna upp hinar miklu tafir, sem orðið hafa við hana á undanförnum mánuðum. Tímabundið verði leitað til verktaka eða jafnvel nágrannasveitarfélaga um aðstoð í þessu skyni á meðan tiltækur tækjabúnaður og mannafli Reykjavíkurborgar dugir ekki til eins og komið hefur fram.

B. Tillaga fulltrúa Sjálfstæðisflokksins

Lagt er til að strax verði bætt úr því ófremdarástandi, sem ríkir varðandi gámalosun og umhirðu á grenndarstöðvum í Reykjavík. Aukinn kraftur verði settur í losun gáma og umhirðu við þá. Leitað  verði  til  verktaka  um  tímabundna  aðstoð  í  þessu  skyni  á  meðan  útboð  á  umhirðu  grenndarstöðva stendur yfir. Þá verði settar upp áberandi merkingar við grenndarstöðvar um að óheimilt sé með öllu að skilja óflokkað heimilissorp eftir við þær.

Afgreiðslu tillagnanna var frestað til næsta fundar ráðsins.

Þá lögðu sjálfstæðismenn einnig fram eftirfarandi fyrirspurn á fundinum:

,,Óskað er eftir greinargerð um fyrirkomulag og framvindu sorphirðu í Reykjavík frá því innleiðing nýs flokkunarkerfis hófst í maí síðastliðnum. Þar verði eftirfarandi spurningum meðal annars svarað:

1. Hversu miklar tafir hafa orðið á hirðu heimilissorps í Reykjavík á árinu? Óskað er eftir yfirliti yfir tíðni sorplosunar eftir hverfum borgarinnar á tímabilinu og frávik frá sorpdagatali. Hversu  margir  dagar  hafi  liðið  á  milli  losunar  einstakra  sorpflokka?

2.  Hvenær  mega  borgarbúar búast við því að sorphirða verði komin í viðunandi horf í borginni? Óskað er eftir yfirliti eftir hverfum.

3. Hversu miklar tafir hafa orðið á losun gáma á grenndarstöðvum í borginni á  árinu?  Óskað  er  eftir  yfirliti  yfir  tíðni  gámalosunar  eftir  grenndarstöðvum  og  hverfum.

4.  Hvenær  má  búast  við  því  að  gámalosun  og  umhirða  á  grenndarstöðvum  verði  komin  í  viðunandi horf?“