Vill öflugra samstarf Norðurlanda og Eystrasaltsríkjanna

Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir utanríkisráðherra ásamt forsætisráðherra Lettlands, Krišjānis Kariņš.

Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, utanríkisráðherra, segir breytt landslag heimsmála kalla á enn öflugra samstarf Norðurlanda og Eystrasaltsríkja á alþjóðavettvangi.

Þetta var eitt helsta áherslumál ráðherra á nýafstöðnum fundi utanríkisráðherra Norðurlandanna og Eystrasaltsríkjanna (NB8) í Lettlandi, að því er segir í tilkynningu frá utanríkisráðuneytinu.

Á fundinum ræddu ráðherrarnir málefni Úkraínu og nauðsyn þess að ráðamenn í Rússlandi verði látnir sæta ábyrgð vegna innrásarstríðsins, sem og mögulegar leiðir til að fylgja eftir yfirlýsingu G7-ríkjanna frá því í sumar, um áframhaldandi og óskoraðan stuðning við Úkraínu og raunhæfar langtímaskuldbindingar einstakra ríkja.

„Málefni Úkraínu eru okkur ávallt ofarlega í huga,“ sagði utanríkisráðherra á sameiginlegum blaðamannafundi ráðherranna að fundi loknum. „Einarður stuðningur Eystrasaltsríkjanna við Úkraínu er okkur innblástur enda þekkja þau best af eigin raun þá ógn sem stafar af Rússlandi sem ekki virðir alþjóðalög og landamæri. Norðurlöndin láta ekki sitt eftir liggja enda er nauðsynlegt að styðja varnarbaráttu Úkraínu til að standa vörð um lýðræðið og þau gildi sem við deilum.“

Á síðustu tveimur fundum norrænu utanríkisráðherranna hefur verið rætt um mikilvægi sameiginlegra norrænna skilaboða á alþjóðavettvangi sem og aukna áherslu á samstarf og samskipti við ríki í suðrinu til að vega á móti áhrifum Rússlands. Í því sambandi er litið sérstaklega til reynslu og sögu Eystrasaltsríkjanna.

„Þrátt fyrir að öryggismál í okkar heimshluta séu ofarlega á baugi er ekki síður mikilvægt að taka höndum saman til að styrkja fjölþjóðlega samvinnu og dýpka tengslin við þjóðir utan okkar heimshluta,“ segir utanríkisráðherra.

Þá var orkuöryggi á tímum loftslagsbreytinga og aukin orkuþörf í Evrópu, sömuleiðis til umræðu á fundi ráðherranna.

„Við höfum átt í mikilvægum samræðum um hvernig við getum unnið saman að því að hraða grænu orkuskiptunum og efla sameiginlegt orkuöryggi okkar. Við Íslendingar búum auðvitað yfir víðtækri reynslu og þekkingu í þeim efnum,“ segir utanríkisráðherra.

Um NB8 samstarfið

Norðurlöndin eiga í sameiginlegu samstarfi við Eystrasaltsríkin þrjú, Eistland, Lettland og Litháen. NB8-samstarfið, sem svo er kallað, stendur á traustum grunni og er mikilvægur vettvangur við hlið Norðurlandasamstarfsins. Utanríkisráðherrar ríkjanna átta funda árlega og ríkin eiga með sér víðtækt pólitískt samráð og vinna saman á vettvangi alþjóðastofnana. Ríkin skiptast á að taka að sér formennsku í hópnum. Ísland fór síðast með formennskuna árið 2019 og tekur næst við aftur 2029. Lettland er í formennsku 2023 og Svíþjóð tekur við um áramót.