Hinir upprunalegu verkalýðsflokkar hafa verið yfirteknir af þeim þjóðfélagshópum, sem einn viðmælandi minn úr forystusveit Sjálfstæðisflokksins kallaði á dögunum „vinstri sinnaða menntaelítu“. Það sama hefur gerzt í mörgum öðrum Evrópulöndum og þess vegna hefur sú óvænta þróun orðið í sömu löndum að kjósendur, sem teljast tilheyra svonefndum „verkalýðsstéttum“ hafa gengið til liðs við nýja flokka á hægri kanti stjórnmálanna og eru sennilega í hópi fylgismanna Trumps vestan hafs.
Þetta segir Styrmir Gunnarsson, fv. ritstjóri Morgunblaðsins, í pistli sem hann ritar á heimasíðu sína.
„Hvers vegna hefur þetta gerzt? Sennilega vegna þess að upplifun þessa kjósendahóps er sú að vinstri sinnaða menntaelítan hafi gleymt þeim.
Svar hennar hefur verið að stimpla þá flokka sem „pópúlíska“ öfgaflokka til hægri. Aðrir líta svo á að „pópúlismi“ sé merkimiði, sem hin nýja pólitíska yfirstétt Vesturlanda hafi sett á stefnumál, sem henni séu ekki að skapi (Francis Fukuyama).
Tækifæri fyrir Sjálfstæðisflokkinn?
Þótt „vinstri sinnuð menntaelíta“ hafi yfirtekið bæði VG og Samfylkingu á það sama ekki við um þann flokk, sem fyrir hálfri öld var orðinn annar stærsti verkalýðsflokkur landsins þegar mælt var í fjölda fulltrúa á ASÍ-þingum og þá er átt við Sjálfstæðisflokkinn.
Er hugsanlegt að framangreind þróun í kjósendafylgi hafi opnað tækifæri fyrir Sjálfstæðisflokkinn?
Er það ekki verðugt umræðuefni fyrir verkalýðsarm Sjálfstæðisflokksins, sem enn er til?“ spyr Styrmir.
Hagur lítilmagnans ekki ofarlega í huga
Kári Stefánsson, prófessor í læknisfræði og forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar, talaði á svipuðum nótum í færslu á fésbókinni í gær, þar sem hann rifjaði upp þingsályktunartillögu sem faðir hans, Stefán Jónsson heitinn rithöfundur og alþingismaður, lagði fram á sínum tíma og var ætlað að tryggja að launamunur yrði ekki of mikill í íslensku samfélagi.
„Nú er liðin tæp hálf öld síðan faðir minn lagði fram þingsályktunartillöguna og tæpt ár síðan Katrín Jakobsdóttir formaður VG varð forsætisráðherra á sama tíma og borgarstjórinn er Samfylkingarmaður. Tíminn er ólíkindatól. Það er engin lykt af honum, ekkert bragð og engin áferð sem má finna með næmum fingurgómum og hann sést ekki en það sjást á öllu breytingar við það eitt að hann líði. Eitt af því sem hefur breytst á hálfri öld er að félagshyggjuflokkarnir eru ekki lengur málsvarar verkalýðsins á Íslandi. Þeir hlúa ekki lengur að minni máttar í íslensku samfélagi þótt að fyrir kosningar segist þeir gera það heldur hlúa þeir að öðrum þeim sem segjast vilja hlúa að minni máttar en gera það ekki. Það liggur við að þeir sýni verkalýðnum fyrirlitningu af því að hann talar ekki nægilega gott mál, les ekki bækur og er með vitlausar skoðanir á alls konar málum,“ segir Kári.
„Bæði forsætisráðherra og borgarstjóra gengur illa að tjá sig þannig að nokkur maður trúi því að þeim sé hagur lítilmagnans ofarlega í huga þótt enginn vafi leiki á því að þau vildu hann sem mestan svo fremi sem ekki þurfi að fórna miklu fyrir hann.
Kom inn í VG sem umhverfissinni
Til dæmis um vanda forsætisráðherra er útvarpsþáttur sem hún mætti í ásamt Styrmi Gunnarssyni rétt fyrir áramótin þar sem honum var tíðrætt um misskiptingu veraldlegra gæða á Íslandi. Svar hennar við því var að hún hefði ekki komið inn í VG úr gamla Alþýðubandalaginu heldur sem umhverfissinni. Það mátti skilja þau ummæli þannig að hún væri enginn gamaldags sósíalisti og þar af leiðandi væri misskipting auðs ekki hennar stóra mál. Þau orð sem hún hefur látið falla um ákvarðanir Kjararáðs eru líka þess eðlis að þau verða ekki túlkuð á annan veg en þann að henni finnist að mörgu leyti erfitt að vera talsmaður meira launajafnræðis í samfélaginu.
Borgarstjóranum okkar er ekki tíðrætt um mikilvægi þess að jafna tækifæri barna úr fjölskyldum fátæktar og annara vandræða með því að hlúa betur að leikskólum og grunnskólum. Í þess stað lætur hann skreyta fjölbýlishús með málverkum eftir Erró, punta upp á Miklubrautina og reynir að setja einhvers konar met í því hversu miklu fé megi koma fyrir í einum bragga.
Kannski hin sósíaldemókratíska hugsun á bakvið braggaævintýrið sé sú að vegna þess að það bjó fátækt fólk í bröggum hér áður fyrr sé göfugt að sólunda ævintýralega miklu fé í að endurbyggja einn af þeim sem einhvers konar legstein yfir fátækt í borginni. Og svo talar hann um borgarlínu eins og hún komi til með að leysa húsnæðivanda unga fólksins, tekjuvanda fátæka fólksins, leikskólavanda barnafólksins og gera alla jafna í borginni.
Þess ber að geta að það er ekki séríslenskt fyrirbrigði að félagshyggjuflokkar séu búnir að tapa tengslum sínum við verkalýðinn og það má færa fyrir því rök að það sé ein af ástæðum þess að utangarðsfólk flykkist að hægri öfgaflokkum beggja vegna hafs. Það breytir ekki þeirri staðreynd að svona er þetta hjá okkur og það er bæði dapurlegt og hættulegt,“ segir Kári ennfremur.