Yfir samfélaginu hanga risastór óleyst mál en allt í rugli hjá ríkisstjórninni

„Þótt júlí sé yfirleitt steindauður tími í pólitíkinni á Íslandi er það í rauninni ekki valkostur þetta sumarið. Ekki aðeins er allt í rugli hjá ríkisstjórninni; yfir samfélaginu hanga risastór óleyst mál, verðbólgan sem setur nú fjárhag hvers heimilisins af öðru í uppnám, hún er beintengd stjórnlausum ríkisútgjöldum og fjárlagavinnunni sem fram fer í sumar,“ segir Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Miðflokksins og fv. forsætisráðherra, þegar Viljinn bað hann að greina stjórnmálaástandið fyrir sinn hatt, nýjustu kannanir sem sýna vaxandi óánægju með ríkisstjórnina og harða gagnrýni formanns þingflokks Sjálfstæðisflokksins á stjórnarsamstarfið í dag, þar sem hann sagði ríkisstjórnina standa veikum fótum og uppi væri vantraust meðal stjórnarþingmanna í garð matvælaráðherrans Svandísar Svavarsdóttur.

„Útlendingamálin eru stjórnlaus eins og sjálfstæðismenn eru farnir að viðurkenna, þeir segja að eitthvað þurfi að gera en hafa ekkert gert undanfarin ár nema að ýta undir vandann. Ef þeim væri alvara myndu þeir grípa strax til ráðstafana og leggja fram ný útlendingalög í upphafi nýs þings. Því þora þeir þó varla og láta nægja að viðurkenna að þeir viti að eitthvað þurfi að gera.

Bankamálin eru óleyst og þar hefur ekki verið horft á stóru myndina. Stóri fíllinn, Lindarhvoll, eða Leyndarhvoll eins og hann er nú kallaður, er enn í stofunni og reynt að fela hann á bakvið sófann.

Hvalveiðimálið er enn óleyst og óljóst hvort formaður Sjálfstæðisflokksins og matvælaráðherra hafi náð að tala saman síðan það kom upp. Þingflokksformaður Sjálfstæðisflokksins skrifaði óvenju afdráttarlausa og harðorða grein í Morgunblað dagsins. Það er útilokað að hann hafi gert það án þess að hafa haft stuðning flokksforystunnar. Spurningin er bara sú hvort þetta var gert bara til að tikka í boxið merkt „gagnrýni” áður en menn láta sig hverfa inn í sumarið eða hvort alvara er að baki. Það er að minnsta kosti ljóst að úr því sem komið er nær flokkurinn annað hvort fram breytingum með góðu eða illu eða viðurkennir ósigur eina ferðina enn,“ segir Sigmundur Davíð ennfremur.

Sigmundur Davíð telur hættuna þá fyrir samfélagið að Stokkhólmsheilkennið sé orðið svo ráðandi hjá samstarfsflokkum VG að ekkert gerist og menn haldi áfram að vona að hlutirnir breytist af sjálfu sér.

„En það mun ekki gerast og á meðan eru stórmál á öllum sviðum óleyst, ekki bara þau sem ég nefndi hérna áðan heldur líka neyðarástand í landbúnaði, orkumálum, byggðamálum o.s.frv. Nefndu málið, það er allt í rugli.

Yfir stjórninni hanga svo kjarasamningar með óstarfhæfan ríkissáttasemjara og stóru óleystu málin frá síðasta þingi, t.d. áhugi Sjálfstæðisflokksins á að vega að fullveldi landsins með bókun 35 og nýjum ESB-sköttum á samgöngur og áhugi VG á að setja alla landsmenn á námskeið í vinstri grænum fræðum.

Það er erfitt að horfa upp á þetta ástand þegar vel er hægt að leysa öll þessi mál með smá skynsemi, forystu og alvöru stefnu. En það var svo sem aldrei markmið þessarar ríkisstjórnar. Stjórnar sem státaði sig af því í upphafi að vera ekki stjórn um stór pólitísk álitamál heldur stöðugleika og breiða skírskotun.

Skírskotunin virðist ekki vera mjög breið þessa dagana og algjör óstöðugleiki einkennir samstarf hinnar meintu stöðugleikastjórnar,“ segir hann ennfremur.

Sigmundur Davíð bætir því við að forystumenn ríkisstjórnarinnar séu nú líklegast að vonast til þess að jarðhræringar og jafnvel eldgos dreifi athyglinni frá vandamálunum í bili. „Það hefur reyndar gerst nokkrum sinnum að ríkisstjórnin hafi fengið eldgos þegar hún var í vanda. Hvað sem líður jarðhræringum bíða vandamálin og ég á erfitt með að sjá að þessi ríkisstjórn geti leyst þau.“