„Sú samfélagstilraun, sem hefur verið í gangi í Evrópu á liðnum 50-70 árum í Evrópu í þá átt að gera þessa heimsálfu að „fjölmenningarsamfélagi“, hefur gjörsamlega mistekist, engum blöðum er um það að fletta. Þróunin hefur verið mjög hröð síðan að Angela Merkel og Þýskaland tóku þá ákvörðun fyrir alla Evrópu (Schengen-svæðið) að opna landamæri álfunnar. Við eigum að snúa strax af þeirri braut að gera slíkt hið sama, því við sjáum afleiðingarnar um alla Evrópu. Hluti af því að bregðast við er að endurskoða útlendingastefnuna og -lög en ekki síður aðild okkar að Schengen samkomulaginu og efla landamæragæslu til muna.“
Þetta segir Guðbjörn Guðbjörnsson, yfirtollvörður og formaður Tollvarðafélags Íslands, í færslu á fésbókinni. þar sem hann greinir stjórnmálaviðhorfið og umræðuna um útlendingamál. Hann segir ekki of seint að bregðast við:
„Íslendingar verða að gera sér grein fyrir því að með því að opna landamærin erum við í raun að samþykkja að afnema velferðarkerfið, því við höfum ekki efni á slíku kerfi fyrir alla heimsbyggðina. Það er vissulega gott að vera ekki einangruð þjóð og heimóttarskapur er af hinu slæma, en að vilja halda í það góða í menningu sinni og rækta það og þróa er ekki slæmt. Það að elska sína menningu og þykja vænt um eigin þjóð er ekki öfgafull þjóðernishyggja eða kynþáttahyggja. Nei, í gegnum tíðina hefur það þótt eðlilegt að vera gestrisin og í grunninn kærleiksík en um leið þykja vænt um sína fjölskyldu, sinn ættbálk, sína þjóð.
Við Íslendingar megum heldur ekki gleyma að velgengni okkar og velferð eigum við engum öðrum að þakka en sjálfum okkur. Við stóðum aldrei í stríðsrekstri eða arðrændum nýlendur og höfum í því sambandi enga skuld að gjalda. Reyndar tel ég núverandi kynslóðir á Vesturlöndum ekki lengur standa í neinni þakkarskuld við einn eða neinn eða þurfi að hafa samviskubit vegna atburða sem átt sér stað fyrir meira en öld síðan. Tímar hins eilífa samviskubits, fórnarlambamenningar og pólitísks rétttrúnaðar verða að enda hér og nú,“ bætir hann við.