„Ég átti góðan fund með Katrínu Jakobsdóttur forsætisráðherra Íslands,“ sagði Volodymyr Zelenskí, forseti Úkraínu eftir fund með Katrínu Jakobsdóttur forsætisráðherra í Osló í dag. „Ég er þakklátur fyrir pólitískan stuðning Íslands, þær refsiaðgerðir sem landið hefur tekið þátt í, mannúðaraðstoð, tjónaskrána og eindreginn vilja til þess að draga Rússa til ábyrgðar fyrir stríðsglæpi sína. Við ræddum og samræmdum næstu skref fyrir árið 2004 og lengra. Sameiginlegt markmið er að verja frelsi Úkraínu og frið í Evrópu og vinnum saman að því,“ bætti forsetinn við.
Leiðtogar Norðurlandanna funduðu einnig sameiginlega með Zelenskí í Osló í dag og á þeim fundi áréttuðu Norðurlöndin stuðning sinn við Úkraínu.
„Ég ræddi við Zelenskí annars vegar um ætlun íslenskra stjórnvalda að gera langtímaáætlun um fjárhagslegan stuðning við Úkraínu og á hvaða málasviðum hann gæti nýst best. Og hins vegar um þann pólitíska stuðning sem Ísland hefur sýnt Úkraínu og þau verkefni sem við höfum beitt okkur fyrir.
Ræddi ég þar sérstaklega tjónaskrána sem við lögðum mikla áherslu á að komið yrði á laggirnar í formennskutíð okkar í Evrópuráðinu en það verkefni er nú komið vel af stað,“ segir Katrín Jakobsdóttir.