Íslendingar eru að drukkna í upplýsingum, en á sama tíma kvartar fólk yfir því að komast ekki undir yfirborðið í umræðunni að kjarna máls. Það er mikil vinna að lesa sig gegnum efni dagblaða og netmiðla, fylgjast með ljósvakanum og reyna að glöggva sig á umræðum á margvíslegum samskiptamiðlum.
Íslenskir fjölmiðlar keppast flestir um að segja fyrst frá sömu fréttunum í stað þess að leggja áherslu á túlkun, ályktanir og úrvinnslu. Fyrir vikið verður umræðan stundum yfirborðskennd og meira um upphrópanir og stóryrði, en málefni og staðreyndir.
Finna þarf aðra fleti á helstu málum sem brenna á landsmönnum, skoða forsöguna og setja hlutina í samhengi. Nú eru uppi kjöraðstæður fyrir nútímalegan og borgaralega sinnaðan vefmiðil sem hefur góða blaðamennsku að höfuðmarkmiði og veitir almenningi þá mikilvægu þjónustu að sía það markverðasta úr upplýsingaflóðinu og vera allt í senn virk fréttaveita og um leið vettvangur fyrir þjóðfélagsumræðuna og aðgangur að hagnýtum og nauðsynlegum upplýsingum.
Viljinn er slíkur miðill. Hann hefur skoðun á málum, vill að betur sé hugað að eldri borgurum og barnafjölskyldum, vill huga að gömlum og góðum gildum og telur að gera þurfi stórátak í húsnæðismálum til að skapa sátt milli kynslóðanna. Viljinn er öðrum þræði hugveita fyrir áhugaverðar tillögur um það sem betur má fara og mun m.a. gangast fyrir ráðstefnum, skoðanakönnunum og fleiru.
Viljinn er fjármagnaður með sölu auglýsinga og beinum stuðningi lesenda, líkt og orðið er algengt víða um heim.
Viltu styrkja borgaralega fjölmiðlun? Þitt framlag skiptir miklu máli. Bankareikningur Viljans er: 0186-26-11020 kt: 470518-1540