Miðflokkurinn óskar skýringa á vanbúnaði í óveðrinu

Nokkrir þingmanna Miðflokksins: Karl Gauti Hjaltason, Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, Birgir Þórarinsson, Bergþór Ólason og varaþingmaðurinn Jón Þór Þorvaldsson.

Miðflokkurinn hefur óskað eftir að forsætisráðherra flytji Alþingi skýrslu, til skýringar á viðbúnaði og viðbrögðum mikilvægra innviða á vegum stjórnvalda vegna óveðursins sem skall á landinu um þarsíðustu helgi. Eins var spurt hvaða úrbætur stjórnvöld hyggist gera í framhaldinu. Frá þessu segir í tilkynningu frá þingflokki Miðflokksins.

Spurt er um Ríkisútvarpið, dreifikerfi raforku, varaaflstöðvar, varahluti og fjarskipti, en rafmagn og fjarskipti duttu út til lengri eða skemmri tíma á meðan á veðrinu stóð og jafnvel í nokkra daga á eftir. Hafði það þau áhrif að íbúar á landsbyggðinni urðu sumir hverjir einangraðir, án hita, rafmagns og sambands við umheiminn.

Jafnframt fór rafmagnið af mikilvægum stofnunum, eins og þeim sem sinna heilbrigðisþjónustu, án þess að varaafl væri þar til reiðu.

(Fréttin hefur verið uppfærð.)