Staðfest hefur verið að Seðlabanki Íslands greiddi Ingibjörgu Guðbjartsdóttur, fv. framkvæmdastjóra gjaldeyriseftirlits bankans, rúmar 18 milljónir króna við starfslok hennar hjá bankanum, skv. samningi sem Fréttablaðið hefur loksins fengið afhentan, og greinir frá í dag.
Viljinn greindi fyrstur frá þessum upplýsingum þann 30. júlí sl., skv. öruggum heimildum innan úr bankanum.
Í samningnum, sem birtur hefur verið í frétt Vísis um sama mál í dag, sem bankinn gerði við Ingibjörgu vorið 2016, kemur fram að hún fékk samtals átta milljónir króna í námsstyrk við Harvard-háskóla í Bandaríkjunum, og 60% af mánaðarlaunum í 12 mánuði. Fékk hún fjórar milljónir króna greiddar árið 2016 og fjórar til viðbótar árið 2017. Skv. heimildum Fréttablaðsins var Ingibjörg með um 1,4 milljónir í mánaðarlaun. Samanlagt gera það átján milljónir.
Í samningnum er ekki gerð krafa um að Ingibjörg snúi aftur til starfa til bankans – og það hefur hún ekki gert. Fram kemur í frétt Fréttablaðsins að upphaflega hafi samningurinn verið munnlegur við þáverandi Seðlabankastjóra, Má Guðmundsson, en verið skjalfestur árið 2016.
„Fari svo að Ingibjörg kjósi að starfa á öðrum vettvangi að námi loknum og snúi ekki til starfa hjá bankanum, mun bankinn ekki eiga neina endurkröfu vegna ofangreinds styrks vegna skólagjalda og vegna launa, meðan á námsleyfi stendur.“
Fáheyrt að stjórnvald leggi jafn mikið á sig við að leyna upplýsingum
Óskað var fyrst eftir afhendingu samningsins í nóvember í fyrra, en því var hafnað. Úrskurðarnefnd um upplýsingamál skikkaði bankann til að afhenda samninginn í sumar. Í kjölfarið var blaðamanni Fréttablaðsins, Ara Brynjólfssyni, stefnt til að fá úrskurðinn felldan úr gildi. Þeirri kröfu var hafnað í Héraðsdómi Reykjaness á föstudaginn. Með afhendingu samningsins til Fréttablaðsins í kjölfar dóms héraðsdóms sl. föstudag, er hægt að álykta að Seðlabankinn hafi ákveðið að áfrýja ekki til Landsréttar.
Samkvæmt þeim upplýsingum sem Viljinn hafði aflað sér og greindi frá í sumar, eru engin dæmi um að einstaklingur hafi fengið jafn stóran námsstyrk hér á landi, sem greiddur er með skattfé, án þess að hann hafi verið auglýstur sérstaklega og aðrir fengið tækifæri til að sækja um. Þá þekkja menn heldur ekki dæmi þess að opinber aðili á borð við Seðlabankann leggi sig jafn mikið fram um að leyna upplýsingunum um þennan gjörning og raun ber vitni.