Viðskiptaráð hefur gefið út nýtt rit um nýsköpunarmál undir heitinu Nýsköpunarheit – 10 aðgerðartillögur til að efla nýsköpun í íslensku samfélagi. Nýsköpunarhópur ráðsins sem stendur að útgáfunni sem felur í sér greiningu á umhverfi nýsköpunar hér á landi og 10 aðgerðartillögur til þess að efla nýsköpun í íslensku samfélagi.
Fimm tillaganna eru áskoranir til stjórnvalda en hinar fimm snúa að Viðskiptaráði sjálfu og er ætlað að hreyfa við viðskiptalífinu.
Í ljósi þess að nú er verið að vinna nýsköpunarstefnu fyrir Ísland til ársins 2030 þótti nýsköpunarhópi ráðsins tilvalið að leggja sjónarmið viðskiptalífsins inn í þá vinnu í formi útgáfu.
Skýrslan fer yfir vítt svið en meðal helstu efnisatriða hennar eru:
- Lagt er til að átak verði gert í fjárfestingarumhverfi nýsköpunarfyrirtækja í gegnum Nýsköpunarsjóð atvinnulífsins. Þar verði sérstaklega hugað að því að laða erlenda fjárfesta til landsins.
- Lagt er til að umsjón beinnar erlendrar fjárfestingar verði fært til Nýsköpunarsjóðs atvinnulífsins í nýrri mynd og að greining verði unnin á því hvort hluti þess fjármagns sem rennur til Íslandsstofu myndi nýtast betur í samkeppnissjóðum.
- Öflugri greiningar á styrkveitingum úr Tækniþróunarsjóði og aukið gagnsæi í umsóknar- og styrkveitingarferlum gætu aukið hagkvæmni í úthlutunum sjóðsins til lengri tíma litið.
- Einfalda ætti umsóknarferli um skattfrádrátt fyrir erlenda sérfræðinga og birta ætti að danskri fyrirmynd leiðbeinandi lista yfir þá sérþekkingu sem lítið framboð er af hverju sinni.
- Málsmeðferðartíma dvalar- og atvinnuleyfa erlendra sérfræðinga ætti að mæla í klukkustundum frekar en dögum.
- Mikilvægt er að fyrirheitum um stafræna þjónustu hins opinbera sé fylgt eftir. Aðferðafræðin við aukna stafvæðingu skiptir máli. Lögin þurfa að kveða skýrt á um að öll þjónusta skuli vera í boði með stafrænum hætti í stað þess að sérstaklega sé kveðið á um að það sé heimilt.
- Viðskiptaráð minnir á að það er ekki hlutverk ríkisins að standa í samkeppnisrekstri á sviði upplýsingatækni.
- Lagt er til að skapaður verði rammi fyrir nýtt félagaform til að auðvelda frumkvöðlum að stofna fyrirtæki og þróa hugmyndir á fyrstu stigum.
- Nauðsynlegt er að efla hvata til rannsókna og þróunar til muna í skrefum til ársins 2030, fyrst með hækkun þaks á endurgreiðslur vegna slíkra útgjalda en síðar með hækkun endurgreiðsluhlutfalls.
- Viðskiptaráð skorar á ríkið að finna leiðir til þess að fjölga raunvísinda- og tæknimenntuðum.
- Viðskiptaráð mun beita sér fyrir öflugri hugverkavernd á Íslandi.
- Viðskiptaráð ætlar að kynna ólíka þætti stuðningskerfisins fyrir frumkvöðlum og fyrirtækjum.
- Viðskiptaráð hyggst opna verkefnagátt Viðskiptalífsins – gagnabanka dæmisagna (e. case studies) þar sem raunverulegar áskoranir í íslensku viðskiptalífi verða settar í „skólabúning“.
- Viðskiptaráð hyggst ráðast í kynningarherferð um frumkvöðlastarf og nýsköpun til þess að vinna gegn staðalímyndum um frumkvöðla- og nýsköpunarstarf.
- Viðskiptaráð hyggst skilgreina, taka saman og birta mælikvarða á árangur nýsköpunarstarfs á sérstöku mælaborði nýsköpunar.