Aðgerðir Seðlabankans fyrir hrun: Allt var í steik og því yrði ekki bjargað

Marinó G. Njálsson hefur sent frá sér bók um efnahagshrunið.

Viljinn birtir hér brot úr nýútkominni bók Marinós G. Njálssonar, Á Asnaeyrum, sem fjallar um betri skoðun á undanfara og eftirmála hrusins. Við grípum niður í 5. kafla um mánuðina fyrir hrun, en undirkafli þessi heitir: Peningamál apríl 2008.

Davíð Oddsson, formaður bankastjórnar Seðlabankans, hafði boðað í ræðu sinni á ársfundi bankans að Peningamál kæmu úr 10. apríl og það gerðu þau.  Nánast má taka saman efni ritsins í upphafsorðum Ásgeir Daníelssonar, hagfræðings á hagfræðisviði bankans, í grein sinni Skekkjur í þjóðhagsspám,  þar segir hann:  „Það er erfitt að spá, sérstaklega um framtíðina.“[1] 

Ég vona að þetta hafi átt að vera íslensk fyndni hjá Ásgeiri, því ég veit ekki um tilgang þess að spá um neitt annað en framtíðina.

Seðlabankinn ákvað að hækka stýrivexti bankans um 50 punkta eða í 15,5%.  Var þetta ofan á 125 punkta hækkun aðeins nokkrum dögum áður.  Bankinn bar fyrir sig í yfirlýsingu bankastjórnar miklum verðbólguvæntingum í kjölfar hruns krónunnar í mars.  Yfirlýsingunni lýkur síðan með orðunum:

„Brýnasta verkefni Seðlabankans er að ná verðbólgumarkmiðinu eins fljótt og auðið er. Miklir eftirspurnarhnykkir undanfarinna ára og óvenjuleg skilyrði á alþjóðlegum fjármálamörkuðum hafa tafið það verk. Engin efni eru til þess að gefa eftir í þeirri baráttu.“[2]

Ég veit ekki hvort maður á að hlæja eða gráta, þegar maður les þessi orð.  Í nokkrar vikur, hið minnsta, er búið að vera að ræða um fjármögnunarvanda bankanna þriggja, að styrkja þurfi gjaldeyrisforða Seðlabankans og bregðast við ímyndarvanda bankakerfisins.  Samt lýsir bankastjórn Seðlabankans því yfir að brýnasta verkefni bankans sé að ná verðbólgumarkmiðum sem fyrst.  Með fullri virðingu var þetta alls ekki brýnasta verkefni Seðlabanka Íslands í byrjun apríl árið 2008.

Teikning Halldórs Baldurssonar af bókarhöfundi.

Það var alveg rétt, að verðbólguþróun hafði versnað, enda hrundi gengið á nokkrum slæmum dögum í mars.  Ég hef hins vegar hvergi séð í hagsögu Íslands að 15,5% stýrivextir hafi slegið á verðbólgu.

Seðlabankinn greinir vandann þannig, að innstreymifjármagns hafi minnkað og það leitt til veikingar gengisins.  Þetta var hins vegar bara önnur breytan semskipti máli.  Hin, og sú sem skipti munmeira máli, var hið aukna útstreymi fjármagns. 

Þegar tölur um fjármögnun bankanna eru skoðaðar og hvernig þeir voru að hlaupa undir með vildarviðskiptavinum sínum, þá var þetta aukna útstreymi fjármagns stærsta vandamálið.  Bankit elur að viðskiptahallinn verði til skamms tíma leiðréttur með lækkun á geng ikrónunnar, en síðar með samdrætti innlendrar eftirspurnar.  Hér er greinilegt, að Seðlabankinn hafði ekki hugmynd um hvað var að gerast eða taldi sig ekki geta greint frá því. 

Það sem var að gerast, var að erlendir lánadrottnar helstu eigenda bankanna voru að gera veðköll, þar sem virði trygginga fyrir lánum höfðu lækkað. Íslensku bankarnir voru með öllum ráðum að reyna svara þessum veðköllum.  Það var því í reynd ekki innlend eftirspurn,sem var sökudólgurinn, heldur kröfur erlendis frá um uppgreiðslu lána í erlendum myntum.  Þar sem allar erlendar fjármögnunarleiðir bankanna voru að meira eða minna leyti lokaðar, þá voru bankarnir beinlínis að þurrkar upp innlendan gjaldeyrismarkað.

Skilaboð Seðlabankans út á markaðinn í Peningamálum 2008/1 voru að verðbólgutoppnum væri líklegast náð!  Var það ótrúlega röng ályktun án þess að þekkja til annars en vísitölubreytinga síðustu 12 mánaða á undan[3].  Þetta var hins vegar í dúr og moll við flest sem kom frá bankanum á þessum mánuðum.  Ekkert samræmi var á milli talna, túlkunar, orða og gjörða.

Bankinn reyndi að réttlæta ákvarðanir sínar og varaði við harðri lendingu m.a. með eftirfarandi rökum:

„Skeytingarleysi gagnvart verðbólgumarkmiðinu myndi vekja upp efasemdir um framkvæmd og raunveruleg markmið peningastefnunnar og grafa enn frekar undan trausti á krónunni.“[4]

Hér er bankinn að senda út skilaboð, sem voru í bestafalli hjákátleg.  Peningastefna, sembyggði á 15,5% stýrivöxtum með hótun um frekari vaxtahækkun framundan, gróf einog sér undan trausti á krónuna og vann gegn verðbólgumarkmiðum.  Svo sem ekki mikið hægt að gera varðandi 2,5%verðbólgumarkmið með 11-13% verðbólgu í kortunum, en vaxtabyrði atvinnulífsinsfór beint út í verðlagið og því juku háir stýrivextir á verðbólguþrýstinginn, endrógu ekki úr honum. 

Næst vísar bankinn til peningalegs aðhalds og segir að slökun þess væri á skjön við verðbólgumarkmiðin.  Svo vill til, að á sama tíma opnaði bankinn fyrir móttöku á nánast hvaða salernispappír sem var í endurhverf viðskipti.  Bindiskylda var lækkuð eða afnumin á hinum ólíklegustu pappírum.  Þarna voru ekki orð og gjörðir að fara saman.  Hitt er að varnarræða Seðlabankans var góð, bara undir einhverjum öðrum kringumstæðum:

„Sjónarmið sem heyrst hafa um að Seðlabankinn ætti að varpa verðbólgumarkmiðinu fyrir róða í því skyni að stuðla að stöðugleika í fjármálakerfinu eru því byggð á misskilningi. Vandséð er að erlend útlán bankanna geti hvílt á fyrirgreiðslu Seðlabankans sem veitt er í íslenskum krónum. Til þess að bankarnir geti keppt á erlendri grund á þeim forsendum yrðu stýrivextir hér að vera mun lægri eða viðvarandi gengislækkun að bæta upp vaxtamuninn. Það kynni að gerast sjálfkrafa þegar bankarnir kaupa erlenda gjaldmiðla fyrir krónurnar sem þeir fengju lánaðar í Seðlabankanum. Gengislækkunin, verðbólgan og samdrátturinn sem fylgdi í kjölfarið myndi fljótlega leiða til aukinna vanskila skuldsettra heimila og fyrirtækja og grafa undan fjármálastöðugleika þegar fram líða stundir.“[5]

Í fyrsta lagi var enginn fjármálastöðugleiki þegar þessi orð voru rituð.  Allt var í rúst eða á leiðinni þangað.  Seðlabankinn var að taka við alls konar ruslpappírum á móti endurhverfum viðskiptum, búið var að loka á flestar lánalínur bankanna þriggja hjá erlendum bönkum, haldinn hafi verið fyrirlestur yfir seðlabankamönnum í heimsókn í London og verið var að leita logandi ljósi að láni til að stækka gjaldeyrisforða Seðlabankans.  Keisarinn var ekki í neinum fötum, en bankastjórn Seðlabankans neitaði að viðurkenna það.  Peningastefnan var hrunin, verðbólgumarkmiðin voru utan seilingar og Seðlabankinn kom með útópíska skýringu á því hvers vegna hann vildi frekar brotna en bogna.

En á eftir útópíunni kom loksins raunsönn greining:

Mikilvægt er að horfast í augu við hið óumflýjanlega

Framundan eru erfiðir tímar í íslensku atvinnulífi. Við núverandi skilyrði á alþjóðlegum fjármálamörkuðum er ekki mögulegt að fjármagna jafnmikinn viðskiptahalla og áður. Þessar aðstæður hafa þegar knúið fram lækkun á gengi krónunnar og samdráttur innlendrar eftirspurnar virðist óumflýjanlegur. Að beita peningastefnu til þess að koma í veg fyrir hann er ekki aðeins tilgangslaust heldur getur leitt til meiri samdráttar síðar, enda myndi meiri verðbólga sem af slíku hlytist minnka svigrúm peningastefnunnar til þess að styðja hagvöxt síðar. Því fyrr sem tekst að hemja verðbólguna, skapa verðbólguvæntingum kjölfestu og auka traust á gjaldmiðlinum, því mildari verða eftirköstin og því fyrr getur hagvaxtarskeið hafist að nýju.“[6]

Eftir allt sem á undan var komið, var loksins komið að kjarna málsins.  Allt var í steik og því yrði ekki bjargað.  Samt er eins og Seðlabankinn þurfi alltaf að vera í mótsögn við sjálfan sig.

„Að beita peningastefnu til þess að koma í veg fyrir hanner ekki aðeins tilgangslaust heldur getur leitt til meiri samdráttar síðar..“

Bankinn er ítrekað búinn að segja, að hann ætli að halda sig við peningastefnuna til að vinna gegn lækkun krónunnar og segir síðan að það sé tilgangslaust.  Hvort er það?  Það er svona málflutningur eða röksemdafærsla sem fær mann til að efast um vinnubrögð bankans.  Hvaða skilaboð er bankinn að senda?  Að allt verði gert til að ná verðbólgunni niður og styðja við gengi krónunnar eða að tilgangslaust sé að reyna það.  Davíð Oddsson, þáverandi seðlabankastjóri, sagði í ræðu og viðtölum, að bankinn hafi varað við í Peningamálum 2008/1, en þetta var eins og í ræðu hans á ársfundi bankans.  Það var eins og tveir ólíkir einstaklingar með gjörólíkar skoðanir hefðu stungið niður penna við að lýsa viðhorfi bankans.

Tekið skal fram, að ýmsar greiningar í Peningamálum 2008/1 eru mjög áhugaverðar og skýra vel þá stöðu sem hafði verið að byggjast upp í þjóðfélaginu mánuðina á undan.  Mér finnst hins vegar, sem oftar, skorta tengingu á milli greininganna og ákvarðana bankans.  Það var eins og sérfræðingar bankans væru með flest á hreinu, en yfirstjórnin væri ekki að hlusta.

En ég hef áhyggjur af skilningi fleiri bankastjóra Seðlabankans, en bara Davíðs.  Þannig hélt Ingimundur Friðriksson erindi 25. apríl á fundi stjórnar og framkvæmdastjórnar norska Kredittilsynet (fjármálaeftirlit Noregs) og sagði þar m.a.:

„Umsvif Íbúðalánasjóðs á fasteignaveðlánamarkaði og ríkisábyrgðin á skuldbindingum hans truflaði markaðinn og kom í veg fyrir að stýrivaxtahækkanir Seðlabankans endurspegluðust í vöxtum fasteignalána.“[7]

Ég skil ekki þessi rök seðlabankastjóra.  Skipti ekki meira máli hér, að vextir fasteignaveðlána voru verðtryggðir?  Að ég tali nú ekki um, þegar stór hluti af þeim fasteignaveðlánum, sem ekki voru verðtryggð, voru gengistryggð. Var ekki fyrir hendi skilningur á því, að verðtryggðir vextir og LIBOR vextir verða ekki fyrir áhrifum af stýrivöxtum?

Síðar í erindinu greinir seðlabankastjóri frá því, að bankinn hafi búist við því að gengið myndi veikjast, en sú breyting hafi komið fyrr og hraðar.  Hér verður að setja þessi orð í samhengi við það sem segir í Stefnuyfirlýsingu bankastjórnar Seðlabanka Íslands í Peningamálum 1/2008, en þau komu út í febrúar 2008.  Þar segir m.a.:

„Raungengi fór nærri sögulegu lágmarki og gengi krónunnar er óæskilega lágt.“[8]

Þegar seðlabankastjóri heldur erindi sitt í apríl 2008, hafði gengið lækkað um 30% til viðbótar og samt segir hann, að bankinn hafi búist við þessu.  Hvers lags dómsdagsvitleysa er þetta?  Var bara verið að mála myndina bjarta fyrir fávísa Norðmennina eða var skilningur bankastjórans ekki meiri á stöðunni?  Raungengið hafði farið nærri sögulegu lágmarki fyrir útgáfu Peningamála í febrúar.  Eigum við að trúa því, að Seðlabankinn hafi búist við því að raungengið færi í sögulegt lágmark í apríl 2008 eftir að hafa verið í góðri stöðu í júlí árið áður?

Það eru svona atriði, sem fær mann til að halda, aðSeðlabanka Íslands hafi vantað skilning á því sem hann var að fást við eða varað breiða yfir það sem hann vissi. Vissulega nefnir bankastjórinn að enn hafi syrt á dalnum, en aðferðintil að bregðast við var að hækka stýrivextina úr 13,75% í 15,50%, eins og þaðhafi átt að bjarga genginu, og að breyta reglum um bindiskyldu vegna erlendraútibúa, veðlán og innstæðubréf.  Held égað þetta með bindiskylduna og veðlánin hafi valdið því að fall krónunnarstöðvaðist, en ekki hækkun stýrivaxtanna. Líklegast skipti mestu máli, að búið var að svara erlendum veðköllum íbili.[1] Peningamál 2008/1, bls. 83. Skekkja í þjóðhagsspá.

[2] Peningamál 2008/1, bls. 3, Stefnuyfirlýsing bankastjórnar Seðlabanka Íslands

[3] Samkvæmt tölum Hagstofunnar þá var 6 mánaða verðbólga fyrir tímabilið október 2007 til mars 2008 10,15%, vísitalan hækkaði síðan um 1,32% í september 2007 og búast mátti við mikilli hækkun vísitölunnar í apríl 2008 vegna gengislækkunarinnar í mars.  Sú hækkun reyndist verða 3,41%.  Skoðum þetta allt saman: 10,15% hækkun 6 mánaðarverðbólgu, mikla hækkun í september og áttum von á mikilli hækkun í apríl.  Það var því alveg kristaltært, að verðbólgan myndi hækka mikið og haldast há alveg þar til apríl mælingin fyrir 2008 myndi detta út með apríl mælingunni 2009.  Sjálfur spáði ég 18-20% verðbólgu í árslok 2008 í bloggfærslu í maí 2008.  Þetta voru einfaldlega upplýsingar sem hægt var að lesa úr þekktum vísitölumælingum.  90% óvissubil Seðlabankans sagði hins vegar að verðbólgan myndi toppa í um 13% um mitt ár 2009, meðan spáin var að verðbólgan toppaði í innan við 11% á 4. ársfjórðungi 2008.  Nokkuð sem var gjörsamlega ómögulegt út frá þekktum gildum og væntingum fyrir apríl 2008.

[4] Peningamál 2008/1. Þróun og horfur í efnahags- og peningamálum. Bls. 12.

[5] Peningamál 2008/1. Þróun og horfur í efnahags- og peningamálum. Bls. 12.

[6] Peningamál 2008/1. Þróun og horfur í efnahags- og peningamálum. Bls. 12-13.

[7] Erindi Ingimundar Friðrikssonar er að finna á vef Seðlabanka Íslands. Sótt 5. júní 2017.

[8] Peningamál 1/2008. Stefnulýsing bankastjórnar Seðlabanka Íslands. Bls. 3.