Ævintýri á Ísafirði: Fyrsti íslenski einhyrningurinn og eitt verðmætasta fyrirtæki Íslandssögunnar

Miklu var tjaldað til á Ísafirði í morgun, þegar samningar um kaup danska lækningavörufyrirtækisins Coloplast á öllu hlutafé Kerecis voru kynntir. Er umfang viðskiptanna metið á 170-180 milljarða króna, eða yfir milljarð bandaríkjadala og er ísfirska frumkvöðlafyrirtækið því orðið eitt verðmætasta fyrirtæki Íslandssögunnar, hvorki meira né minna.

„Minn draumur með stofnun Kerecis var tvíþættur – að þróa aðferðir til að fækka aflimunum og græða sár, samhliða því að efla atvinnuþróun á Vestfjörðum. Hvoru tveggja hefur tekist og þessi samningur er sögulegur, þar sem vestfirskt sprotafyrirtæki er orðið eitt verðmætasta félag Íslandssögunnar,“ segir Guðmundur Fertram Sigurjónsson, forstjóri og stofnandi Kerecis. Hann segir skipulag fyrirtækisins verða óbreytt og hann haldi áfram sem forstjóri.

Fundarstjóri á kynningarfundinum á Ísafirði í morgun var Ólafur Ragnar Grímsson, fv. forseti Íslands, en hann situr í stjórn fyrirtækisins.

„Stórar fréttir fyrir hugvit á Íslandi, nýsköpun, rannsóknir, háskóla og vísindi. Kerecis er fyrsti íslenski einhyrningurinn (e. unicorn) sem þýðir að vera frumkvöðlafyrirtæki sem er metið á yfir 1 milljarð bandaríkjadollara. Þetta kemur íslenskri nýsköpun og heilbrigðislausnum héðan á kortið,“ segir Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, nýsköpunarráðherra á fésbókinni í tilefni þessara stóru frétta.