„Reykjavíkurborg vinnur að borgarþróun fyrir Veðurstofureit svo þar megi koma fyrir íbúabyggð sem hentar námsmönnum, tekjulágum, ungu fólki til fyrstu kaupa og fólki á almennum fasteignamarkaði. Unnið verður út frá spennandi tillögu frá dönsk-íslensku hönnunarstofunni Lendager.
Eitt helsta markmiðið er að styðja við að þar rísi heildstætt íbúðahverfi á miðsvæði ásamt þjónustu með sterkum vistvænum áherslum í sátt við núverandi umhverfi. Svæðið afmarkast af Kringlumýrarbraut til austurs, Bústaðavegi til suðurs, núverandi íbúabyggð við Stigahlíð til norðurs og Háuhlíð til vesturs um opið svæði í Litlu Öskjuhlíð. Alls er gert ráð fyrir að byggingarmagn íbúða á Veðurstofuflötinni verði á bilinu 15.000-30.000 fermetrar,“ segir í tilkynningu sem birtist á vef Reykjavíkurborgar fyrir skemmstu.
Þar er ennfremur lögð áhersla á að hverfið skapi rými sem ýtir undir samveru. „Húsnæðið verður fyrir fjölbreytta fjölskyldusamsetningu og brú á milli kynslóða. Ekki er gert ráð fyrir almennum akstri einkabíla á svæðinu en komið til móts við aðrar þarfir með þjónustuvegi fyrir hreyfihamlaða, sorphirðu, neyðarakstur og þess háttar. Deilihagkerfið á svæðinu fær ríkan stuðning af bílastæðahúsi, gróðurhúsi, vinnuaðstöðu, hjólaverkstæði, verkfæraaðstöðu, deilibílum, verslunum og kaffihúsi og samnýtanlegu húsnæði. Landmótunin sækir innblástur í það ísaldarlandslag sem nú þegar er til staðar á hæðinni þar sem náttúra og gróður fléttast saman við og stækkar inn í hið byggða umhverfi. Veðurstofureiturinn verður á þennan hátt borgarhverfi sem er samtvinnað náttúrunni.“
Borgarþróunin verður unnin áfram hjá skipulagsfulltrúa með ráðgjöfum Lendager næsta vetur. Skoðað verður sérstaklega hvernig hægt er að hanna og þróa byggingar, rými á milli bygginga og öflugar tengingar við nærliggjandi hverfi fyrir fólk, samhliða deiliskipulagsgerð.