Álitið alvarlegur áfellisdómur: Þingnefnd skoðar Samherjamálið

Óli Björn Kárason, þingmaður Sjálfstæðisflokksins.

Álit umboðsmanns á stjórnsýslu Seðlabankans í tengslum við álagningu stjórnvaldssektar, er alvarlegur áfellisdómur, segir Óli Björn Kárason alþingismaður í samtali við Viljann.

„Eftir að hafa lesið ítarlegt og vel rökstutt álit umboðsmanns, óskuðum við Brynjar Níelsson eftir því að umboðsmaður yrði kallaður á fund stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar Alþingis til að fara yfir málið,“ bætir hann við, en gert er ráð fyrir að sá fundur verði nú á miðvikudag.

Í framhaldinu verði seðlabankastjóri og formaður bankaráðs einnig boðaðir á fund nefndarinnar.

Bankaráðið fundaði um álitið

Gylfi Magnússon, formaður bankaráðs Seðlabankans, sagði í fréttum RÚV í gær, að álit umboðsmanns feli óneitanlega í sér harða gagnrýni á stjórnsýslu bankans í málinu.

Gylfi Magnússon.

Bankaráðið hafi fjallað um álitið á fundi sínum á föstudag og ályktað þar um að bankinn bregðist við og taki málið upp í samræmi við ábendingar umboðsmanns. Kanna ætti hvort taka þyrfti upp önnur sambærileg mál.

Gylfi segir að þetta álit hafi verið eitt af því sem bankaráðið vildi skoða áður en þeir gengju frá svari til forsætisráðherra varðandi Samherja-málið. Gylfi segir að það fari að styttast í svar bankaráðsins þótt hann vilji ekki lofa neinum dagsetningum.