Almennt útboð hefst í Ísfélaginu á morgun

Guðbjörg Matthíasdóttir er langstærsti eigandi hlutafjár í Ísfélaginu sem nú er á leið á hlutabréfamarkað.

Ísfélag, elsta starfandi hlutafélag landsins, hefur birt lýsingu vegna almenns útboðs sem hefst í fyrramálið og fyrirhugaðrar skráningar á Aðalmarkað Nasdaq Iceland. Félagið er leiðandi í veiðum og vinnslu gæðaafurða úr uppsjávar- og bolfiski. Skráning hlutabréfa Ísfélags á Aðalmarkað gerir áhugasömum fjárfestum kleift að taka þátt í vexti félagsins og styðja það til frekari sóknar.

„Skráning Ísfélags á Aðalmarkað hefur það að markmiði að efla grundvöll fyrir frekari vöxt fyrirtækisins. Við teljum að fjölbreyttari hópur fjárfesta styrki framtíðarsýn og rekstur félagsins til lengri tíma. Saman getum við sótt fram og nýtt fjölmörg tækifæri sem við stöndum frammi fyrir. Fjölbreytt og góð samsetning á aflaheimildum mun auka stöðugleika í veiðum og vinnslu og ábata í rekstri. Traust fjárhagsstaða Ísfélags skapar svigrúm til sóknar og styður við spennandi tækifæri í dóttur- og hlutdeildarfélögum,“ segir Stefán Friðriksson, forstjóri Ísfélagsins í tilkynningu vegna útboðsins og skráningarinnar.

Ísfélag hf. var stofnað 1. desember 1901 og er elsta starfandi hlutafélag landsins. Félagið er með starfsemi í Vestmannaeyjum, á Siglufirði, í Þorlákshöfn og á Þórshöfn á Langanesi. Hlutverk félagsins er að stunda veiðar og framleiða hágæða afurðir úr bolfiski og uppsjávarfiski. Áhersla félagsins er að stunda ábyrgar veiðar og vinnslu í sátt við samfélagið og umhverfið.

Helstu afurðir félagsins eru fiskimjöl, lýsi, ásamt frystum og ferskum bolfiskafurðir. Í allri vinnslu félagsins er fylgt eftir stöngum gæðamarkmiðum og starfsreglum sem byggðar eru á áhættuþáttagreiningu (HACCP).  Ferskar og frosnar bolfiskafurðir eru aðallega seldar til Frakklands, Spánar, Englands og Bandaríkjanna. Frosnar uppsjávarafurðir eru einkum seldar til Póllands, Úkraínu, Hvíta-Rússalands, Kína og Japan. Mjöl og lýsi er selt til framleiðenda laxafóðurs í Noregi og Skotlandi. Afurðir félagsins eru að miklu leyti seldar af Iceland Pelagic ehf. og Stormar ehf., sem eru sölufyrirtæki sem Ísfélagið á með öðrum sjávarútvegsfyrirtækjum.

Í Vestmannaeyjum er rekið öflugt frystihús sem er sérhæft til vinnslu á uppsjávarafla. Frystigetan í húsinu er rúm 500 tonn á sólarhring. Á milli uppsjávarvertíða er unninn bolfiskur í frystar og ferskar afurðir. Í Vestmannaeyjum er einnig framleitt fiskimjöl úr loðnu, síld, makríl og kolmunna í fiskimjölsverksmiðju félagsins. Framleiðslugeta verksmiðjunnar er um 1.200 tonn af hráefni á sólarhring. 

Á Þórshöfn er rekið öflugt frystihús þar sem unninn er bolfiskur og uppsjávarfiskur. Bolfiskvinnslan byggist á þorsk- og ufsavinnslu.  Á Þórshöfn er einnig framleitt fiskimjöl úr loðnu, síld og makríl í fiskimjölsverksmiðju félagsins. Framleiðslugeta verksmiðjunnar er um um 900 tonn af hráefni á sólarhring.

Í Þorlákshöfn er rekin bolfiskvinnsla þar sem unninn er m.a. þorskur, karfi, ufsi og ýsa.  Helstu afurðirnar eru ferskir eða léttsaltaðir-frosnir hnakkar, bitar og heil flök fersk eða frosin léttsöltuð. Stærstu markaðir framleiðslunnar eru á meginlandi Evrópu. 

Á hafnarsvæðinu á Siglufirði er rekin nýleg rækjuverksmiðja sem framleiðir soðna og pillaða kaldsjávarrækju. Hluti af hráefni hennar er fersk rækja sem landað er á Siglufirði og hluti er keyptur frosinn frá norskum og kanadískum skipum. Mikil áhersla er lögð á vöruvöndun og hreinlæti í verksmiðjunni og uppfyllir hún gæðastaðla margra af helstu smásölukeðjum í Bretlandi auk þess að vera með BRC samþykki.

Helstu upplýsingar um almennt hlutafjárútboð og fyrirhugaða töku til viðskipta á Aðalmarkaði

  • Boðnir verða til sölu í almennu útboði 118.923.851 þegar útgefnir hlutir í félaginu, sem jafngildir 14,53% af heildarhlutafé félagsins.
  • Almenna útboðið skiptist í tvær áskriftarbækur, áskriftarbók A þar sem 23.784.770 hlutir verða boðnir til sölu á föstu verði 135 kr. á hlut og áskriftarbók B þar sem 95.139.081 hlutir verða boðnir til sölu á lágmarksverði 135 kr. á hlut.
  • Áskriftartímabil hefst kl. 10:00 að íslenskum tíma þann 23. nóvember og stendur til kl. 14:00 þann 1. desember 2023.
  • Nánari upplýsingar um útboðið og skilmála sem um það gilda má finna í lýsingu Ísfélags, sem er staðfest af Fjármálaeftirliti Seðlabanka Íslands og birt í dag, 22. nóvember 2023.
  • Sótt hefur verið um að hlutabréf félagsins verði tekin til viðskipta á Aðalmarkaði Nasdaq Iceland. Gert er ráð fyrir að fyrsti viðskiptadagur á Aðalmarkaði verði þann 8. desember nk., að því gefnu að umsókn félagsins verði samþykkt af Nasdaq Iceland fyrir þann tíma.