Árið er 2019 og leiðtogi íslenskra sósíalista leggur til þjóðnýtingu olíufélaganna

Kommúnisminn má muna fífil sinn fegurri og víðast hvar hafa hugmyndir um þjóðnýtingu verið settar til hliðar (nema í Venesúela) en leiðtogi íslenskra sósíalista, Gunnar Smári Egilsson, telur að við Íslendingar eigum að grípa til þjóðnýtingar á nokkrum stærstu fyrirtækjum landsins.

Í færslu á fésbókarvef Sósíalistaflokks Íslands í gær komu breytingar á heimsmarkaðsverði á olíu til umræðu og Gunnar Smári er ósáttur við að verðið lækki aðeins um sex prósent hér á landi, meðan það hafi fallið um tæpan fjórðung á alþjóðavísu.

„Mismunurinn fer til eigenda olíufélaga sem standa saman á fákeppnismarkaði í að okra á almenningi. Af hverju er olíuverslunin ekki bara þjóðnýtt?“ spyr Gunnar Smári.

„Hverju myndi það breyta? Það mætti örugglega lækka verðið rækilega, skera burtu yfirbyggingu og arðfreka eigendur og spara í rekstri. Til hvers er almenningur að greiða eigendum þessa þríhöfða þurs fleiri hundruð milljóna árlega?“ segir hann.