„Í tæplega 1100 daga hef ég haft stöðu sakbornings hjá héraðssaksóknara en rannsóknin hefur staðið yfir í 1294 daga. Hverjar eru sakirnar? Ég get ekki fyllilega svarað því. Ég veit að ég hef stöðu sakbornings frá ársbyrjun 2011, nokkrum árum áður en ég hóf störf hjá Samherja, og vegna tveggja lagaákvæða. Það eru upplýsingarnar sem ég hef fengið. Engin gögn benda til afbrota af minni hálfu og sá sem hóf ásakanirnar hefur breytt framburði sínum í minn garð og dregið í land. Þrátt fyrir það hefur héraðssaksóknara neitað margsinnis um að breyta stöðunni minni.“
Þannig skrifar Arna McClure, sem verið hefur yfirlögfræðingur Samherja frá árinu 2013, í einlægum pistli sem hún birti á fésbókinni fyrir skemmstu. Þar rekur hún sína hlið mála sem mjög hafa verið til umræðu um margra ára skeið. Fylgja skrif hennar hér á eftir:
„Af hverju ætli það sé? Líklegasta skýringin er fyrri mistök embættisins. Hinn 10. nóvember 2011 vísaði Fjármálaeftirlitið málefnum einkahlutafélags til rannsóknar hjá forvera héraðssaksóknara. Sakborningar voru boðaðir til skýrslugjafar strax og 1. desember 2011 gaf einn aðili fyrstu skýrslu sem sakborningur. Þremur vikum síðar gaf viðkomandi aðra skýrslu en þá hlaut hann stöðu vitnis. Innan við sex mánuðum síðar var enn á ný tekin skýrsla af honum en þá aftur sem sakborningur. Þó Hæstiréttur hafi sakfellt viðkomandi árið 2015 taldi einn dómaranna að framangreind meðferð á viðkomandi hefði brotið í bága við lög og vísa bæri málinu frá. Alls tók rannsókn málsins 595 daga.
Réttlætir gagnrýni Hæstaréttardómarans að héraðssaksóknara neiti að breyta stöðu minni án nokkurs rökstuðnings þegar engin gögn eða framburði benda til misgjörða af minni hálfu? Hafa ber í huga að málið hefur verið margfalt lengur í rannsókn, skýrslur teknar af fjölmörgum einstaklingur og ekki óvarlegt að ætla að embættið hafi undir höndum hátt í milljón skjöl, ef ekki meira.
Athyglisverður dómur í Noregi
Hinn 14. júní í fyrra féll athyglisverður sýknudómur í Osló þar sem rétturinn gagnrýndi harðlega vinnubrögð lögreglu. Orðrétt sagði rétturinn: “Retten bemerker at det ikke er fremlagt noe dokumentbevis, eller vært ført noe vitne, som konkret indikerer at noen av de tiltalte i samtid visste eller forsto at det foregikk ulovlig virksomhet.” Sumsé, það var ekkert sem réttlætti að gefin hafi verið út ákæra á hendur viðkomandi, engin gögn og engin vitni. Saksóknari ákvað að áfrýja ekki málinu heldur sætta sig við niðurstöðuna.
Sem fyrr segir hefur rannsókn héraðssaksóknara staðið yfir í tæplega 1300 daga og ég haft stöðu sakbornings í tæplega 1100 daga. Á þeim tíma hef ég aldrei fengið upplýsingar um hvað ég er grunuð um að hafa brotið af mér.
Til að bæta gráu ofan á svart var mér bætt við sem sakborningi í skattamál Samherja fyrir tæplega ári síðan, í nokkra mánuði, áður en það mál var svo endanlega fellt niður. Átti ég þá að fá stöðu sakbornings frá ársbyrjun 2010, eða þegar ég var enn nemandi í skóla. Sem fyrr fékk ég engin svör um hvað ég var grunuð um að hafa gert og var beiðnum mínum um að mæta í skýrslutöku strax hafnað. Gekk erfiðlega að fá útskýringar en það tókst þó nokkurn veginn 14. mars á þessu ári. Hafði skattrannsóknarstjóri, sem boðaði mig í umboði héraðssaksóknara, eftirfarandi um málið að segja: “Fyrirliggjandi gögn þóttu ekki með neinu móti geta tekið af skarið um þetta, þannig að á grundvelli þeirri yrði séð af eða á hvort einstaklingar sem ætlað varð að tilheyrðu ofangreindum hópi kynnu í raun og veru að hafa gengið fram með refsiverðri háttsemi. Ekki yrði heldur talið að fyrirliggjandi gögn upplýstu til fulls hvaða einstaklinga gæti verið um að ræða í þessu sambandi.”
Til að taka af öll tvímæli útskýrði skattrannsóknarstjóri ennfremur: “Þannig voru þau gögn sem fyrir lágu í málinu voru einfaldlega ekki svo ítarleg eða heildstæð að ályktað yrði að þau upplýstu til fulls um í fyrsta lagi hvort refsiverð háttsemi hefði átt sér stað. Enn síður upplýstu þau til fulls hvaða einstaklingar hefðu þá komið þar að með þeim hætti að þeir hefðu bakað sér refsiábyrgð í umræddu sambandi.”
Skortur á grun í minn garð kom þrátt fyrir allt ekki í veg fyrir að ég yrði boðuð í skýrslutöku með stöðu sakbornings frá þeim tíma að ég var enn nemandi. Staðan var felld niður í nóvember 2022.
Ég veit að ég hef ekki brotið af mér
Hinn 23. júní síðastliðinn sendi lögmaður minn enn eitt bréfið á héraðssaksóknara og fór fram á að staða mín sem sakborningur yrði felld niður. Þó öllum erindum mínum hafi verið beint til héraðssaksóknara sjálfs hefur annars saksóknari alltaf séð um að svara og hafna beiðnum mínum. Það vill svo til að bróðir hans er með stöðu sakbornings í öðru máli þar sem ég er brotaþoli og hafði unnið með ásakandanum í Namibíumálinu í marga mánuði áður en sá sagði héraðssaksóknara sögu sína. Vinnuveitandi bróður hans braut svo blað í íslenskri blaðamennsku fyrir skömmu þegar fjölmiðillinn birti mynd af mér og nafngreindi í enn öðru máli þar sem ég var brotaþoli. Mér vitanlega hafa blaðamenn til þessa ekki slegið upp myndum af brotaþolum, jafnvel þó mál endi með sýknu, og kennt þeim um eða haldið á lofti ávirðingum í garð brotaþola sem þeir vita að eru rangar. Af hverju segi ég að þeir viti það? Jú, því það kom skýrlega fram í samskiptum mínum við vinnufélaga minn sem þeir hafa skemmt sér við að skoða.
Til allrar hamingju þekkja fæstir hvernig það er að hafa stöðu sakbornings. Ég veit að ég hef ekki brotið af mér og öll gögn málsins og framburðir styðja það. Þetta er engu að síður erfitt. Ekki bætir úr skák þegar ákveðnir fjölmiðlamenn telja að ávirðingarnar hafi svipt mig réttinum til einkalífs og gefið þeim leyfi á að snúa út úr glefsum úr einkasamskiptum mínum við vin minn og samstarfsaðila til þess að geta selt blöð, fengið fleiri áskriftir og verðlaun. Til að taka af allan vafa:
Ég hef aldrei haft afskipti af kosningum í Blaðamannafélagi Íslands. Ég hafði áhyggjur af því hver var í framboði til formanns árið 2021 því ég taldi næsta víst að hún myndi beita félaginu gegn vinnuveitanda mínum. Áhyggjur mínar reyndust á rökum réttar. Bætti hún svo í og hélt málstofu sem fjallaði um hversu vond við vinnuveitandi minn, ég og samstarfsfélagi erum.
Ég hef aldrei haft afskipti af kosningum í Sjálfstæðisflokknum eða öðrum stjórnmálakosningum. Ég er ekki einu sinni flokksbundin. Hef ég skoðun á mönnum og málefnum eins og vonandi flestir aðrir kosningabærir landsmenn. Hvort skoðanir mínar séu alltaf vel ígrundaðar eða gáfulegar er svo önnur ella. Eiga skoðanir mínar erindi við almenning? Ekki nema ég kjósi að deila þeim með almenningi. Enda væru að öðrum kosti atkvæði hvers einstaklings opinber. Þau eru það ekki því aðrir eiga ekki rétt á að vita skoðanir fólks eða forsendur nema það sjálft kjósi að deila þeim með almenningi.
Ég kann að meta litbrigði íslenskrar tungu og nýti mér það í samskiptum við fólk. Þegar blaðamaður gat ekki staðfest á hvaða heimildum hann byggði ávirðingar sínar í garð vinnuveitanda míns hvatti ég vin minn til að spyrja aftur. Þegar blaðamaðurinn gafst upp og eyddi samskiptunum í stað þess að svara, hvatti ég hann til að spyrja aftur enda vissi ég að blaðamaðurinn gat með engu móti staðið fast á ávirðingunum þar sem þær voru byggðar á sandi. Ef til vill má ég ekki segja að ávirðingarnar hafi verið byggðar á sandi því vafalaust færu sömu aðilar þá að leita að gylltri strönd. Svona er íslenskt tungumál skrautlegt. Átti val mitt á orðatiltækjum og þess háttar erindi við almenning? Nei. Öðru fremur á það erindi við almenning þegar verðlaunaðir blaðamenn geta ekki sýnt fram á réttmæti ávirðinga sem þeir hafa uppi.
Í gegnum þetta allt saman hef ég fengið flóruna af skilaboðum frá fólk sem bæði stendur mér nærri og einnig fólki sem ég þekki ekki neitt. Hefur mér þótt ákaflega vænt um fallegu skilaboðin sem margir hafa gefið sér tíma til að skrifa. Þau hafa snert mig mjög og hjálpað mér mikið. Hin skilaboðin vil ég sem minnst um segja. Það vita allir að orð geta sært og því óþarfi að endurtaka þau.
Ég held þessi pistill sé orðinn nógu langur en þetta er í fyrsta sinn sem ég hef opnað mig um það sem hefur gengið á. Til allrar hamingju er það ekki svo að aðeins hafi áföll og drungi einkennt mitt líf undanfarin ár en ég vil ekki blanda saman því sem er gott við uppgjörið við fortíðina.“