Árni Oddur fær samþykkta greiðslustöðvun eftir starfslok í kjölfar veðkalls

„Eins og ég tilkynnti í gær, þá hef ég látið af störfum sem forstjóri Marel eftir 10 ára starf, en áður var ég stjórnarformaður félagsins í átta ár. Samhliða því hef ég nú fengið samþykkta greiðslustöðvun vegna þeirrar réttaróvissu sem skapast hefur vegna aðgerða Arion banka, sem leyst hefur til sín hluta hlutabréfa minna í Eyri Invest, leiðandi fjárfestis í Marel, þrátt fyrir að ákvæðum langtímalánasamnings við bankann hafi verið fullnægt.“

Þannig hljóðar yfirlýsing sem fjölmiðlum hefur borist frá Árna Oddi Þórðarsyni, sem þangað til í gær var forstjóri Marels. Fréttir um óvænt starfslok hans hafa vakið gífurlega athygli í íslensku viðskiptalífi í dag, ekki síst sú staðreynd að Arion banki hafi gert veðkall í hlutabréfum svo áhrifamikils manns í íslensku viðskiptalífi vegna lána í vanskilum.

Í frétt Viljans í gær sagði meðal annars:

Tíðindin munu virka sem rautt aðvörunarblys á íslenskum hlutabréfamarkaði. Annars vegar undirstrikar þetta stórversnandi stöðu Marels, sem fyrir nokkrum árum var ekki talið geta gert neitt rangt í viðskiptalífinu. Og hitt, sem margir hafa óttast um skeið, að bankarnir herði nú á veðköllum sínum í kjölfarið á hruni virði hlutabréfa í mörgum stórum félögum. Fari banki af slíkri hörku gegn forstjóra Marel, geta menn ímyndað sér hvort minni spámenn verða teknir einhverjum vettlingatökum.

Það eru því áhugaverðir tímar framundan í íslensku viðskiptalífi og líklegt að ýmsir sem lifað hafa hátt og verið áberandi þurfi að laga sig að nýjum og gjörbreyttum veruleika. Verðbólgan, vextirnir og verri staða er ískaldur raunveruleikinn og einn viðmælandi Viljans segir að gamla reglan sé enn í gildi, „að bankinn vinnur alltaf“.