Atkvæðagreiðsla í morgun: Alþingi telur hvalveiðar vera atvinnumál, ekki umhverfismál

Athyglisverð niðurstaða varð á Alþingi í dag að lokinni fyrstu umræðu um frumvarp Andrésar Inga Jónssonar, þingmanns Pírata (og áður VG) og fleiri um bann við hvalveiðum, með því að frumvarpið gekk ekki til umhverfis- og samgöngunefndar eins og flutningsmaður lagði til, heldur atvinnuveganefndar að tillögu forseta Alþingis.

Með frumvarpinu er lagt til að gera hvalveiðar óheimilar með því að fella brott lög um hvalveiðar, nr. 26/1949, og færa hvali undir lög um vernd, friðun og veiðar á villtum fuglum og villtum spendýrum, nr. 64/1994. „Vernd og friðun hvala á sér langa sögu á Íslandi. Með lögum um friðun hvala, nr. 6/1886, voru leiddar í lög miklar takmarkanir á hvalveiðum. Þá var friðun hvala aukin 1903 og aftur 1913. Með þessu frumvarpi er ætlunin að stíga til fulls þau skref sem framsýnt þingfólk hóf að stíga fyrir rúmri öld,“ segir meðal annars í greinargerð með frumvarpinu.

Andrés Ingi sagði við atkvæðagreiðsluna í morgun að fáheyrt sé að forseti þingsins gangi fram með slíkum hætti gegn vilja flutningsmanna, en gaf í skyn að það tengist deilum innan ríkisstjórnarinnar um framtíð hvalveiða hér við land. Sagði hann bann við hvalveiðum vera umhverfismál en ekki efnahagsmál og þetta væri úreltur atvinnuvegur.

Meirihluti þingsins reyndist ekki á sama máli og var málinu vísað á endanum til meðferðar í atvinnuveganefnd. Þar er formaður Teitur Björn Einarsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, en hann hefur gagnrýnt harðlega þá ákvörðun Svandísar Svavarsdóttur matvælaráðherra snemma sumars að banna hvalveiðar. Hann sagði á þingi í morgun, að hlutverk atvinnuveganefndar væri skýrt samkvæmt þingskaparlögum og ljóst væri að þegar lagt væri til að leggja niður heila atvinnugrein, væri ljóst að atvinnuveganefnd þyrfti að skoða þau mál. Frumvarpið tæki ekkert á efnahagslegum afleiðingum þess að banna hvalveiðar, enda væri slíkt fortakslaust bann brot á stjórnarskrá.

Úr fundargerð þingsins:

Frumvarpinu var að endingu vísað til atvinnuvn. með 23:16 atkv. og sögðu já:ÁBG, ÁslS, ÁsF, BergÓ, BirgÞ, BjarnB, BjarnJ, BHar, BrynB, DME, GHaf, HHH, HSK, HildS, JFF, KJak, LA, ÓBK, SVS, SÞÁ, SSv, TBE, ÞórP.nei:AIJ, ArnG, ÁLÞ, BLG, DagH, EDS, GRÓ, GIK, HKF, JPJ, LenK, OH, TAT, ÞorbG, ÞSÆ, ÞSv.

1 þm. (EÁ) greiddi ekki atkv.

23 þm. (ÁsmD, BHS, BÁ, BjG, GÞÞ, GuðmG, IngS, IÓI, JFM, JSkúl, JónG, KFrost, LRS, LínS, LE, NTF, SGuðm, SDG, SIJ, VilÁ, WÞÞ, ÞKG, ÞórdG) fjarstaddir.