„Ísland er í sterkri stöðu og öllu máli skiptir að halda fast í árangurinn. Hratt batnandi afkoma og áframhaldandi aðhald í ríkisfjármálum stuðlar að efnahagslegum stöðugleika. Samhliða gæti verðbólgan lækkað hröðum skrefum, en til þess þarf samhent átak,“ sagði Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra er hann kynnti fjárlagafrumvarp næsta árs á blaðamannafundi nú í morgun.
Hann benti á mikinn uppgang hér á landi á undanförnum árum, gríðarlegan hagvöxt í öllum samanburði og mikla kaupmáttaraukningu. Ekki sé hægt að vonast eftir sambærilegri aukningu áfram meðan tekist sé á við verðbólguna. „Við þurfum núna aðeins að ná andanum,“ bætti hann við og sagði árangur í baráttunni gegn verðbólgu stærsta hagsmunamál samfélagsins alls og mikið væri í húfi.
Ekkert Evrópuríki sem tölur ná til hafði meiri hagvöxt á fyrri helmingi ársins en Ísland. Hröðum vexti hafa fylgt mikil umsvif á vinnumarkaði., en atvinnuleysi er hverfandi og starfandi fólki hefur fjölgað um ríflega 30 þúsund frá síðustu mánuðum ársins 2020.
Talsverð spenna hefur haldist í hendur við mikinn slátt í hagkerfinu og fylgifiskur þess birtist m.a. í verðbólgu. Hún er ekki séríslenskt vandamál en hefur þó reynst þrálát hér undanfarna mánuði. Áherslur fjárlagafrumvarps fyrir árið 2024, sem lagt er fram í dag, taka mið af þessum veruleika.
Frumjöfnuður hátt í 100 milljörðum króna betri en áætlað var
„Gert er ráð fyrir að frumjöfnuður ríkissjóðs í ár verði hátt í 100 milljörðum króna betri en áætlað var við samþykkt fjárlaga yfirstandandi árs en þannig verða tekjur 50 milljörðum meiri en útgjöld að frádregnum vaxtagjöldum og vaxtatekjum. Frumjöfnuður var þegar orðinn jákvæður í fyrra, í fyrsta sinn frá árinu 2019, og nemur batinn yfir 190 ma.kr. á milli áranna 2021 og 2022. Ekki eru mörg dæmi í hagsögu Íslands þar sem jafn mikill bati hefur átt sér stað milli ára. Gert er ráð fyrir að frumjöfnuðurinn haldi áfram að batna árið 2024 þegar leiðrétt er fyrir liðum sem skekkja samanburðinn við yfirstandandi ár, á borð við einskiptistekjur vegna sölu Landsvirkjunar á Landsneti í lok síðasta árs. Ef haldið er áfram á sömu braut er færi á að heildarjöfnuður verði jákvæður áður en langt um líður.
Langtum betri afkoma hefur stutt við þá jákvæðu þróun sem birtist í skuldastöðu ríkissjóðs. Gangi áætlanir eftir mun skuldahlutfall lækka smám saman og verða innan við 31% af VLF í árslok 2024,“ sagði í kynningu ráðherra.