Davos: Dramatískar breytingar blasa við

Í tvö ár hefur hnattræna elítan leitað leiða til að verja sjö áratuga gamalt skipulag viðskipta- og stjórnmálasamstarfs ríkja heims gegn þungum árásum. Í vikunni sögðu talsmenn elítunnar að kerfið væri svo gott sem dautt.

Á þessum orðum hefst stutt samantekt eftir Steve LeVine sem skrifuð er fyrir bandarísku vefsíðuna Axios í Davos í Sviss laugardaginn 26. janúar í lok fundanna sem þar voru í fyrri viku undir merkjum World Economic Forum. Þar hittast áhrifamenn á öllum sviðum frá öllum heimshornum og bera saman bækur sínar.

Hér verður stuðst við þessa grein eftir LeVine sem segir að nú telji meginhugsuðir aðalatriðið að tryggja að það sem kemur í stað kerfisins á næstu árum útiloki stórveldastríð – eins og tekist hafi með núverandi kerfi – og skili meira til allra milljónanna sem efnahagsskipan samtímans hefur látið ósnortnar.

Það sem í vændum er jafnast líklega á við lykilumbreytingar á sviði félagsmála, stjórnmála og efnahagsmála. Þá er bent á breytingarnar um aldamótin 1900, kreppuna miklu um 1930 og byltingu Reagans og Thatcher á níunda áratugnum.

Bent er á að á fundunum í Davos að þessu sinni hafi valdamikið fólk spurt spurninga á opnum fundum sem það hafi aldrei gert áður. Þetta sýni að viðmið séu að breytast og menn fari út áður viðurkenndan ramma.

LeVine segir að eftir Brexit-úrslitin í Bretlandi sumarið 2016 og sigur Trumps í forsetakosningunum í Bandaríkjunum sama ár hafi elítu stjórnmálamenn, forstjórar og fræðimenn sem hittist árlega í Davos núið saman höndunum í örvæntingu vegna áfallanna sem dundu á hnattræna valdakerfinu sem flestir töldu varanlegt.

Blaðamaður Axios segist hafa heyrt það á viðmælendum sínum í Davos að þegar hefði hafist umbreyting í átt að hnattrænni stjórnmálalegri og efnahagslegri skipan mála sem að líkindum yrði allt önnur en sú sem enn er við lýði.

Klaus Scwab, stofnandi World Economic Forum, sagði ráðstefnugestum að þeir yrðu að gera dramatískar breytingar á hnattræna kerfinu, ekki aðeins fikta við það.

Forstjórarnir hafi virst sammála því að taka upp gjörbreytta stefnu til að forðast það versta, til dæmis félagslega upplausn og ofbeldi svo að vitnað sé í Brian Gallagher, forstjóra United Way Worldwide.

Um eitt voru þeir allir sammála: Hraði háþróaðra tæknibreytinga, einkum á svið gervigreindar og sjálfvirkni veldur því að breytingin skapar meiri upplausn en fyrri tímamóta-umskipti.

Hnattræna kerfið hefur nú þegar svignað undan þessum þrýstingi og það hefur gerst á tíma öflugs hagvaxtar. Nú spá ýmsir hagfræðingar hins vegar samdrætti í heimsbúskapnum og að enginn hagvöxtur verði í Bandaríkjunum. Almenningur getur reiðst enn meira við svo krefjandi aðstæður.

Adam Tooze, hagsögufræðingur við Columbia-háskólann í Bandaríkjunum, sagði: „Hugsanlega ríkir frjálslynt viðskiptaumhverfi í kerfi þar valdboðs-ríkisstjórnir ráða.“

Margir telja að ráðamenn í Peking muni fyrr en seinna tróna yfir nýja kerfinu. Það liggi þó ekki endilega í hlutarins eðli en jafnvel þótt valdi sé dreift á milli svæða búi Kínverjar, Indverjar og Brasilíumenn hver við sitt pólitíska kerfi. Það eitt gæti leitt til spennu.

Af vardberg.is, birt með leyfi.