Einar Karl í reiðhjólabransann: Cintamani kaupir GÁP

Einar Karl Birgisson, framkvæmdastjóri og eigandi Cintamani.

Cintamani hefur keypt húsnæði og rekstur hjólabúðarinnar GÁP í Faxafeni 7.  Meðal vörumerkja GÁP eru Cannondale, GT, Mongoose og Kross.  Verslunin verður áfram á sama stað. Cintamani og aðrar nýjungar munu bætast við og stórauka vöruúrvalið.

Í kjölfar kaupanna var gerður samstarfssamningur um rekstur vefverslunarinnar adidas.is sem rekin hefur verið í Faxafeni af Sportmönnum, umboðsaðila Adidas á Íslandi undanfarinn áratug, að því er greint er frá í tilkynningu.

Cintamani bætist þar með í hóp viðskiptavina Sportmanna sem endursöluaðili Adidas. 

Einar Karl Birgisson, framkvæmdastjóri Cintamani segir að GÁP sé þekkt reiðhjólaverslun, stofnuð og rekin af sömu fjölskyldunni frá árinu 1980.  Verslunin hafi góð umboð sem eru þekkt fyrir mikil gæði. Hann segir að mörg tækifæri felast í þessum kaupum og að það verði spennandi að takast á við þetta verkefni. Hann telur að reiðhjólaverslun og útivistarvörumerki vinni vel saman og að það verði gaman að sjá Cintamani spreyta sig á nýjum stað, við hlið annara vörumerkja.

Í tilkynningunni er haft eftir sjálfum GÁP, Guðmundi Ágústi Péturssyni, stofnanda fyrirtækisins, að það sé bæði erfitt en jafnframt virkilega spennandi að afhenda stóran hluta ævistarfins til nýrra aðila. Hann segist vita að hjólabúðin muni vaxa og dafna í góðum höndum enda hefði hann aldrei látið hana af hendi nema með þá vitneskju.

Samningagerð og ráðgjöf var í höndum Davíðsson lögfræðistofu.