„Ráðuneytið staðfestir að gildistími útgefinna leyfa til hvalveiða hafi runnið út um áramótin. Ekkert leyfi til hvalveiða er því í gildi á þessari stundu,“ segir í svari skrifstofu sjálfbærni hjá Matvælaráðuneytinu við fyrirspurn Viljans í dag.
Þetta eru sannarlega tímamót í atvinnusögu þjóðarinnar, en eftir tímabundna stöðvun á hvalveiðum með sólarhringsfyrirvara snemmsumars í fyrra, gaf Svandís Svavarsdóttir matvælaráðherra út reglugerð í lok ágúst sl. sem hún sagði ætlaða til að bæta umgjörð á langreyðum. Reglugerðin kom í framhaldi af niðurstöðum eftirlitsskýrslu Matvælastofnunar um veiðar á langreyðum árið 2022, áliti fagráðs um velferð dýra og skýrslu starfshóps um mat á leiðum til að fækka frávikum við veiðarnar.
„Með hliðsjón af fyrirliggjandi gögnum frá Matvælastofnun og fagráði um velferð dýra, var það mat ráðuneytisins að veiðar á langreyðum gætu ekki farið fram í samræmi við kröfur laga um hvalveiðar og laga um velferð dýra.
Til að bregðast við framangreindu var farin sú leið að fresta fyrirhuguðu upphafi veiðitímabilsins til 1. september. Þannig gæfist tími til að rannsaka hvort unnt væri að gera úrbætur, en í áliti fagráðs var talið vandséð að unnt væri að gera úrbætur á veiðunum. Með tilliti til hagsmuna veiðileyfishafa var tímarammi frestunar settur eins þröngur og unnt var en sem gæfi jafnframt svigrúm til að leita leiða til að minnka frávik við veiðarnar,“ sagði í tilkynningu ráðuneytisins þá, en gildistíminn var til áramóta og er því runnin út nú.
Í nýju reglugerðinni voru gerðar ítarlegar og hertari kröfur til veiðibúnaðar, veiðiaðferða og aukið eftirlit. Skilyrðin sneru m.a. að þjálfun, fræðslu, veiðibúnaði og veiðiaðferðum.
Um það bil 150 manns hafa starfað á hvalveiðivertíð; á hvalveiðiskipunum, í hvalstöðinni í Hvalfirði og í vinnslu fyrirtækisins í Hafnarfirði, en þar hefur hluti afurðanna verið unninn.