Er dómstóll götunnar í Efstaleiti öðrum dómstólum æðri í réttarríkinu okkar?

Sigurgeir Brynjar Kristgeirsson, framkvæmdastjóri Vinnslustöðvarinnar í Vestmannaeyjum.

Eftir Sigurgeir Brynjar Kristinsson:

Í vinnureglum fréttastofu RÚV stendur: 

,,Geri fréttastofan mistök og skýri rangt frá ber að leiðrétta þau svo fljótt sem auðið er á sambærilegum vettvangi og biðjast afsökunar á mistökunum. Aldrei skal reyna að fela, breiða yfir eða draga úr mistökum eða rangfærslum.“

Helgi Seljan og Sigmar Guðmundsson eru aldeilis ekki á þeim buxunum í grein þeirra í Mogganum í gær.  Þær ásakanir um lögbrot sem kynntar voru í Kastljósþáttum í lok mars árið 2012 hafa verið dæmdar dauðar og ómerkar.

Í þeim þætti voru ásakanirnar tvenns konar og báðar byggðar á vinnu og undirbúningi Kastljóss, að eigin sögn:

  1. Fyrirspurnir Kastljóss um verðlagningu karfa (ekki ufsa eins og þeir sögðu í grein sinni í gær) leiddu til rannsóknar Seðlabankans á meintum skilasvikum Samherja á gjaldeyri.
  2. Íslensk sjávarútvegsfyrirtæki sem ráku dótturfélög erlendis keyptu fisk af móðurfélögum sínum á undirverði og endurseldu á mun hærra verði erlendis og færðu hagnað sinn þannig úr landi.  Í þeim hópi voru Samherji og Vinnslustöðin kynnt til sögunnar sem dæmi um þess konar félög

Báðar þessar ásakanir hafa nú verið rannsakaðar og gengið sína leið í réttarsölum landsins.  Ekki fannst fótur fyrir þeim. 

Helgi Seljan fréttamaður.

Í Morgunblaðsgreininni gera höfundarnir nákvæmlega það sem reglur RÚV banna þeim að gera, nefnilega að ,,reyna að fela, breiða yfir eða dragaúr mistökum eða rangfærslum“!

Í vinnureglum fréttastofu RÚV er einnig að finna þessa klausu: 

,,Fréttamönnum ber ætíð að fullvissa sig um að upplýsingar þeirra séu réttar og eiga afdráttarlaust að fylgja þeirri reglu að leita til fleiri en eins aðila til að sannreyna þær upplýsingar sem þeir hafa undir höndum.“

Þar segir einnig:

 ,,Andstæð sjónarmið eiga að koma fram, séu þau til staðar í málum sem fréttastofan fjallar um. Stefnt skal að því að þau komi fram í sama fréttatíma, ef þess er kostur. Í þeim tilvikum sem það er ekki hægt skulu hin andstæðu sjónarmið koma fram á sambærilegum vettvangi. Í þáttum og lengri fréttaskýringum skulu öll sjónarmið koma fram í einu.“

Allar upplýsingar lágu fyrir

Í tilfelli Vinnslustöðvarinnar í Kastljósumfjölluninni lágu allar upplýsingar fyrir um söluverð afurða.  Vinnulag sölufyrirtækja Vinnslustöðvarinnar var með þeim hætti að sölufyrirtækin störfuðu sem umboðsfyrirtæki fyrir Huginn.  Í umboðssölu felst að umboðsaðili fær fyrirfram ákveðið hlutfall af endanlegu söluverði sem þóknun til að standa undir sínum rekstri.  Í afurðasölu frystra afurða eru einungis greidd umboðslaun sem í tilfelli Hugins var ákveðið 2%.  Sú þóknun er í samræmi við eða lægri en ótengd sölufyrirtæki taka fyrir sömu þjónustu. 

Sigmar Guðmundsson fréttamaður.

Vinnslustöðin hafði margítrekað boðið forystumönnum sjómanna aðkoma og skoða öll gögn.  Þeir þáðu það ekki.  Félagið hafði ekkert að fela gagnvart forystumönnum sjómanna eða fréttamönnum Kastljóss.  Allar skýrslur, tölur og samantektir lágu fyrir þegar „rannsókn“ Helga Seljanhófst. 

Þær voru honum aðgengilegar sem og forystumönnum sjómanna. 

Kastljósmenn sinntu ekki sínum eigin vinnureglum um að sannreyna upplýsingar eða koma andstæðum sjónarmiðum fram í lengri fréttaskýringarþáttum eins og Kastljós var og er.

Ásakanirnar standa enn óhaggaðar

Í kjölfar viðtals við mig þar í Kastljósi, sem ég lýsti allri umfjöllun þáttarins sem röngum, eins og síðar kom í ljós var nákvæmlega rétt, var umfjöllunin afkynnt með þeim orðum að Kastljós stæði í einu og öllu við umfjöllun sína.

Alvarlegast í málinu er að ásakanir Kastljóss á hendurVinnslustöðinni og Samherja standa enn óhaggaðar. Ekkert bendir til að Ríkisútvarpið muni kannast við mistök starfsmanna sinna og biðjast afsökunar fyrir þeirra hönd,  fyrst þeir hafa ekki manndóm í sér til að gera það sjálfir.

Er dómstóll götunnar í Efstaleiti 1 öðrum dómstólum æðri í réttarríkinu okkar?

Höfundur er framkvæmdastjóri Vinnslustöðvarinnar í Vestmannaeyjum.