Er ný skýrsla fyrir Svandísi upptaktur að varanlegu hvalveiðibanni?

Ráðgjafafyrirtækið Intellecon hefur skilað inn skýrslu til matvælaráðuneytisins um efnahagsleg áhrifa hvalveiða á Íslandi. Á næstu dögum má vænta ákvörðunar Svandísar Svavarsdóttur matvælaráðherra um framtíð hvalveiða hér á landi, en hún bannaði þær tímabundið í byrjun sumars, daginn áður en veiðar áttu að hefjast. Gera má því skóna, að skýrslan sem skilað hefur verið og niðurstöður hennar, séu upptaktur að varanlegu hvalveiðibanni, enda þótt það stríði gegn stjórnarsáttmála flokkanna þriggja sem mynda núverandi ríkisstjórn.

Ráðuneytið óskaði eftir skýrslunni í byrjun árs. Þar er áhersla lögð á að greina áhrif veiðanna á íslenskt efnahagslíf auk þess sem sjónum er beint að mörkuðum fyrir hvalkjöt, hvalaafurðir og mögulegum áhrifum hvalveiða á aðra útflutningsmöguleika Íslands.

Meðal helstu niðurstaðna er sú að bein áhrif hvalveiða eru lítil á efnahag landsins og að afkoma af þessum veiðum hafi verið neikvæð síðustu tíu ár, enda leyfa engin lönd önnur en Japan og Noregur innflutning á afurðum langreyða. Neysla á hvalkjöti í Japan er lítil og hefur minnkað um 99% síðustu fjóra áratugi.

Niðurstaða skýrslunnar er einnig sú að hvalveiðar hafi neikvæð áhrif á ímynd landsins erlendis og gangi í berhögg við þá mynd sem leitast hefur við að byggja upp af Íslandi m.a. af aðilum í ferðaþjónustu.

„Þegar leitað er eftir viðhorfum fólks erlendis til hvalveiða er það alla jafna mjög neikvætt. Ekki er hægt að fullyrða að þau viðhorf hafi merkjanlega neikvæð efnahagsleg áhrif hér á landi s.s. að auka verulega erfiðleika við að selja framleiðsluvörur okkar erlendis eða dragi úr aðdráttarafli Íslands sem ferðamannalands. Aðrir þættir en neikvæð viðhorf til hvalveiða Íslendinga virðast vega þyngra hvað varðar ákvarðanir um að eiga í viðskiptum við íslensk fyrirtæki eða hvort sækja beri landið heim.

Af ofansögðu má ráða að erfitt er að draga miklar ályktanir um að hvalveiðar hafi yfirhöfuð mikil áhrif á útflutningshagsmuni Íslands þar sem ekki verður séð að hvalveiðar dragi úr komu ferðamanna til landsins né öðrum útflutningi vöru og þjónustu. Þessi áhrif eru ekki merkjanleg, að öðru óbreyttu, þrátt fyrir augljósa og mikla andstöðu almennings í helstu viðskiptalöndum okkar við hvalveiðar yfirleitt,“ segir í niðurstöðum skýrslunnar sem byggir m.a. á opinberum gögnum auk þess sem upplýsinga var aflað hjá þeim aðilum sem vel þekkja til hvalveiða og markaðsmála.

Skýrsluna má nálgast hér.