Þingmenn Miðflokksins gagnrýndu Svandísi Svavarsdóttur matvælaráðherra harðlega í gær og dag á þingi fyrir þá útreið sem samningur matvælaráðuneytisins og Samkeppnisaftirlitsins fékk hjá úrskurðarnefnd samkeppnismála.
„Úrskurðarnefnd samkeppnismála hefur komist að því með mjög afgerandi hætti að samkomulag eða verktakasamningur milli matvælaráðuneytisins og Samkeppniseftirlitsins sé ólögmætur og gerir ýmsar athugasemdir við hvernig að þessu var staðið og hugmyndina um að fara fram með þeim hætti sem þar var lagt upp með. Þegar hefur komið fram að Seðlabankinn, sem einnig var reynt að draga inn í málið, virtist ekki hafa hugmynd um til hvers væri ætlast af honum eða hlutverk bankans í þessu bixi öllu. En eftir standa margar spurningar, sérstaklega varðandi áform matvælaráðherra um að beita fyrir sig sjálfstæðri ríkisstofnun, Samkeppniseftirlitinu, í þessu máli. Forstjóri Samkeppniseftirlitsins, Páll Gunnar Pálsson, hefur haldið því fram að hann hafi átt frumkvæðið að þessari athugun, þessari ólögmætu ráðstöfuun. Hins vegar kemur skýrt fram í gögnum málsins, eins og birtist fyrst í Morgunblaðinu, að frumkvæðið hafi komið frá ráðherranum, frá matvælaráðuneyti,“ sagði Sigmundur Davíð Gunnlaugsson í morgun á þinginu.
Velti hann fyrir sér hvað væri satt í þessu og hvað logið? „Hvor átti frumkvæðið að samkomulaginu ólögmæta, matvælaráðherra eða forstjóri Samkeppniseftirlitsins? Og mun ráðherra draga einhvern lærdóm af þessu máli? Því að eins og kemur líka fram í gögnum málsins var litið á þetta sem svokallað „pilot“-verkefni, þ.e. verkefni sem ætti að verða framhald á, framhald á því að ráðherrann gæti beitt fyrir sig ríkisstofnunum sem einhvers konar pólitískum einkaherdeildum sínum, nokkuð sem ótvírætt er slegið niður í úrskurði úrskurðarnefndarinnar“ bætti hann við.
Á matvælaráðherra var helst að skilja að bæði ráðuneytið og Samkeppniseftirlitið hefðu fengið sömu hugmynd á sama tíma að kortleggja stöðu stjórnunar og eignatengsla í íslenskum sjávarútvegi.
„Þegar ráðuneyti mitt hafði samband við Fiskistofu og Samkeppniseftirlitið þá hafði eftirlitið þegar ráðgert að ráðast í slíka athugun. Hins vegar kom fram hjá stofnuninni að vegna fjárskorts væri ekki ljóst hvenær sú athugun gæti hafist og þess vegna var ákveðið að ráðstafa þeim fjármunum sem fyrir lágu í ráðuneytinu til verksins til Samkeppniseftirlitsins með sérstökum samningi, enda er ráðuneytum auðvitað heimilt að gera samninga á grundvelli laga um opinber fjármál, eins og hv. þingmanni er kunnugt um. Það var auðvitað leitast við að þessi athugun gæti nýst fleiri eftirlitsstofnunum og auk þess var lögð áhersla á að það væri hægt að byggja upp upplýsingatæknigrunn þannig að upplýsingar yrðu fyrirliggjandi í rauntíma. Af því að hv. þingmaður talar um lærdóm þá liggur fyrir að það er mikilvægt að það verði ráðist í úttekt sem þessa og það er skýrt að Samkeppniseftirlitið ætlar að gera það eftir sem áður. Krafa um aukið gagnsæi í sjávarútvegi er hávær meðal almennings og ég tel að það sé gríðarlega mikilvægt að auka gagnsæi og þar með að skapa aukin og bætt skilyrði fyrir traust milli sjávarútvegs og samfélagsins,“ sagði Svandís í svari sínu.
Ekki var Sigmundur Davíð fullsáttur við þessi svör, eða gaf hið minnsta ekki mikið fyrir þau. „Það hljómar einfaldlega ekki trúverðugt að þetta hafi gerst á sama tíma, eða nokkurn veginn, að ráðherra hafði fengið þessa hugmynd, þessa furðulegu hugmynd um að beita fyrir sig Samkeppniseftirlitinu og þá hafi Samkeppniseftirlitið þegar verið búið að fá akkúrat þessa hugmynd; vildi bara svo vel til að þegar ráðherrann hafði samband þá var Samkeppniseftirlitið einmitt búið að vera að velta því fyrir sér að fara í þessa aðgerð sem hefur reynst ólögmæt og fráleit. En bæði ráðherra og Samkeppniseftirlitið fengu engu að síður þessa ólögmætu hugmynd nokkurn veginn á sama tíma. Þetta er ekki trúverðugt, herra forseti,“ sagði hann.