Eru skattahækkanir að koma í stað nauðsynlegs og tímabærs aðhalds á útgjaldahlið?

Sigríður Margrét Oddsdóttir, framkvæmdastjóri SA, á fundi á Selfossi með forsvarsmönnum fyrirtækja á svæðinu á dögunum.

Frá árinu 2019 hafa útgjöld og tekjur ríkissjóðs á mann aukist um rúmlega 40%. Á sama tíma hefur landsframleiðsla á mann, þ.e. verðmæti allrar endanlegrar framleiðslu á gæðum og þjónustu á hvern einstakling sem hér er búsettur, aukist minna eða um 37%. Tekjurnar hafa sveiflast í takti við efnahagslegar aðstæður og hafa nýlega verið ítrekað umfram væntingar

Þetta kemur fram í umsögn Samtaka atvinnulífsins við fjárlagafrumvarpið, en fjárlaganefnd hefur það nú til meðferðar. Samtökin benda á, að þegar gaf á bátinn hafi útgjöld ríkissjóðs aukist verulega en þegar kræla tók á þenslu í hagkerfinu var hvergi gefið eftir á útgjaldahliðinni.

„Afleiðingin er áframhaldandi hallarekstur sem kostar ríkissjóð æ meira í formi vaxtagjalda. Ákjósanlegt hefði verið að draga hluta af hinni miklu útgjaldaaukningu til baka og greiða niður skuldir, peningastefnunni til stuðnings, í stað þess að ráðstafa óvæntum tekjum til aukinna útgjalda. Ráðist hefur verið í skattahækkanir sem hæglega hefði mátt komast hjá. Útgjaldaaukning sem framleiðsla í hagkerfinu getur ekki borið til lengdar er hvorki réttlætanleg né sjálfbær. Verið er að hækka skatta og gjöld í stað þess að ráðast í nauðsynlega naflaskoðun á rekstri ríkissjóðs,“ segir ennfremur í umsögninni sem lesa má í heild sinni hér að neðan.

Viljinn – lesa meira: Umsögn Samtaka atvinnulífsins um fjárlagafrumvarpið 2024.