Fallegar síldartorfur við Bakkaflóadjúp

Barði NK kom inn til Neskaupstaðar á laugardag með 560 tonn af norsk – íslenskri síld og hófst vinnsla á síldinni í fiskiðjuveri Síldarvinnslunnar skömmu síðar.

Á vef Síldarvinnslunnar segir Þorkell Pétursson, skipstjóri á Barða, hvar veitt var. „Við veiddum hana norðan við Bakkaflóadjúp í Langaneskantinum. Við héldum til veiða að lokinni löndun sl. þriðjudag og stefndum í fyrstu í Smuguna til áframhaldandi veiða á makríl. Þá voru hins vegar daufar fréttir af veiðinni þar og því var ákveðið að við myndum skima eftir síld. Við fórum alveg vestur fyrir Melrakkasléttu og byrjuðum að leita þar austur eftir. Strax varð vart við síld en í fyrstu var hún ekki í miklum mæli og ekki í þéttum torfum. Þegar við nálguðumst Bakkaflóadjúpið komu hins vegar í ljós fallegar síldartorfur. Þær voru ekki mjög stórar en býsna þéttar. Við tókum þarna tvö hol. Í fyrra holinu var dregið í þrjá og hálfan tíma og þá fengust 330 tonn. Í seinna holinu var dregið í tvo tíma og þá fengust 230 tonn. Mér sýnist þetta vera mjög góð síld og er meðalvigtin 370 – 380 grömm. Það er afar lítil áta í henni og ég geri ráð fyrir að hér sé um gott hráefni að ræða fyrir vinnsluna. Þetta er mjög fallegur fiskur. Við komum til Neskaupstaðar á laugardagsmorgun en þá var verið að vinna makríl úr Vilhelm Þorsteinssyni þannig að við þurftum að bíða dálítið eftir að löndun hæfist,“ segir Þorkell.