Grunnrekstur Vátryggingafélags Íslands (VÍS) hefur verið að styrkjast jafnt og þétt frá árinu 2015, sem skiptir miklu máli fyrir hlutabréfaverðið. Samsetta hlutfallið, sem segir til um styrk grunnrekstrar, hefur líka verið að batna,“ segir Snorri Jakobsson hjá greiningardeild Capacent í samtali við Viljann.
Hann telur að nú sé efnahagssamdráttur að ganga í garð hér á landi og þá leiti fjárfestar gjarnan í hlutafélög sem gefa fastar og stöðugar aðgreiðslur líkt og tryggingafélögin og fasteignafélögin.
„Markaðurinn er of mikið að stjórnast af sveiflum í afkomu af fjárfestingarstarfsemi að mínu mati og var gengi tryggingarfélaganna sérstaklega VÍS og Sjóvá orðið aftur mjög lágt í lok árs 2018,“ segir hann og bætir við að áherslan nú ætti að vera meiri á svonefnd arðgreiðslufyrirtæki hjá fjárfestum, að hans mati.
Hagnaður VÍS var 2.061 milljónir króna á síðasta ári og jókst um rúm 55% frá árinu 2017 þegar hann var 1.326 milljónir króna. Tekjur félagsins af iðgjöldum jukust um ríflega 10% milli ára og voru 22.710 milljónir króna.
,,Starfsfólk VÍS getur verið stolt af afkomu ársins 2018 enda er árið eitt besta rekstrarár í sögu félagsins þegar litið er til arðsemi og hagnaðar. Þrátt fyrir að árið hafi litast af stórum tjónum í innlendri og erlendri starfsemi félagsins var samsett hlutfall 98,7%. Þetta er annað árið í röð sem samsett hlutfall félagsins er undir 99% sem er í takti við þau markmið sem við höfum sett okkur,“ sagði Helgi Bjarnason, forstjóri VÍS, í tilkynningu til Kauphallarinnar.
Hagnaður Sjóvár á síðasta ári af vátryggingastarfsemi fyrir skatta nam 1.631 m.kr, sem var töluvert betri niðurstaða en árið á undan. Tap af fjárfestingarstarfsemi fyrir skatta nam 679 m.kr, sem var mikill viðsnúningur til hins verra milli ára.
Heildarhagnaður tímabilsins var því 652 mkr og dróst saman milli ára.