Fórnarlömb íslenska gengishrunsins beðin forláts

„Nú eru liðin 15 ár frá þeim harmleik sem hrunið var. Það sem fylgdi reyndist þó jafnvel enn þá meiri harmleikur. Fjölskyldum 15 þúsund heimila var vísað á gaddinn og aleigan hirt af tugþúsundum Íslendinga sem höfðu það helst unnið sér til saka að hafa reynt að koma þaki yfir höfuð sér og barna sinna,“ sagði Jakob Frímann Magnússon, þingmaður Flokks fólksins á Alþingi í dag.

„Ég vil, með leyfi forseta, nefna dæmi um einstakling sem starfar í þessu húsi sem hafði tekið að láni helming andvirðis húseignar fyrir fjögurra manna fjölskyldu sína, 30 millj. kr., rétt fyrir hrun, var síðan tilkynnt rétt eftir hrun að nú væru hinar sömu 30 milljónir orðnar 73 milljónir. Eftir tímafrek og kostnaðarsöm málaferli var ætlast til að þessum einstaklingi yrði mjög létt yfir því að nú væru 30 millj. kr. aftur orðnar 30 millj. kr., en síðan reyndar endurreiknaðar einungis 45 milljónir.

Já, gott fólk. Íslenska birtingarmyndin af alþjóðlega bankahruninu 2008 var að líkindum fyrst og fremst gengishrun en glæpurinn var allur hengdur um hálsinn á þeim sem störfuðu í bönkum þess tíma en alls ekki neinum þeim sem stýrðu hér efnahagskerfinu á óstöðugu gengi íslensku krónunnar áratugum saman.

Annað dæmi: Ungum nýútskrifuðum fjölskyldumanni, sem fékk starf í banka 2007, var skyndilega skipað á sakamannabekk í kjölfar hrunsins. Í stað milljón króna mánaðarlauna tóku við milljón króna mánaðarlegir málsvarnarreikningar í þrjú ár. Hann missti bæði vinnuna, húsið og fjölskylduna. Að þremur árum liðnum barst honum þessi orðsending: Þetta var allt saman á misskilningi byggt. Þú ert frjáls ferða þinna. Gangi þér vel. Var þessum unga leiksoppi örlaganna bættur hús- og fjölskyldumissir með einhverjum hætti? Að sjálfsögðu ekki frekar en öðrum sem settir voru í sambærilega stöðu.

Megi harmleikir á borð við þá sem hér hafa verið tekin dæmi um tilheyra fortíð og megi okkur lánast að fyrirbyggja frekari bankahrun, gengishrun, fjölskylduhrun og andleg hrun sem tugþúsundir Íslendinga hafa mátt þola.

Að endingu. Mig rekur ekki minni til þess að neinn hafi úr þessum stóli beðið fórnarlömb íslenska gengishrunsins forláts á öllu því sem aflaga fór. Ég ætla því að voga mér, með leyfi forseta, að gera það hér með. — Lifið ávallt heil,“ sagði Jakob Frímann.