Gagnrýnir eftirmann sinn í VR fyrir dýrt spaug: Félagið hefur bólgnað út

Stefán Einar Stefánsson, ritstjóri Viðskiptamoggans.

„Það vita þeir sem þekkja til að þessi galna auglýsingaherferð mannsins kostaði félagsmenn VR um eða yfir 20 milljónir króna,“ segir Stefán Einar Stefánsson ritstjóri Viðskiptamoggans og fv. formaður VR, um auglýsingaherferð með Jóni Gnarr sem VG stendur nú fyrir og vakið hefur mikla athygli.

Í umræðum um auglýsingaherferðina á fésbók, segir Stefán Einar:

„Þegar verslunarmenn spurðu hvað þetta ætti að þýða og hvort viðhorf VR væri þetta til verslunareigenda sagði hann: „Það sjá það allir heilvita menn að þetta er grín.“ Það er dýrt spaug,“ segir Stefán Einar.

Hann bendir á að útgjölf af þessu tagi séu greidd úr félagssjóði VR, sem byggist upp af félagsgjaldi (0,7% af launum VR-félaga).

„Á nýliðnu ári námu félagsgjöldin 1.282 milljónum króna, langmest fór í félagssjóð eða 972 milljónir. 155 milljónir fóru í varasjóð (sem er skuld við félagsmenn), 154 milljónir fóru svo í vinnudeilusjóð.

Reyndar hefur félagið bólgnað út á síðustu árum og skrifstofu- og stjórnunarkostnaður nemur 707 milljónum króna á ári, það er fyrir utan 50 milljóna húsnæðisrekstur og 243 milljónir í útbreiðslu- og félagsmál.,“ segir Stefán Einar ennfremur og vekur athygli á, að á sama tíma gagnrýni eftirmaður hans, Ragnar Þór Ingólfsson, lífeyrissjóðina fyrir háan rekstrarkostnað.