Getur Akureyri hvorki boðið upp á náðhús né líkhús?

Ragnar Sverrisson kaupmaður á Akureyri á hugleiðingu dagsins, þar sem hann veltir fyrir sér fregnum af því að líkhús bæjarins hafi verið boðið til sölu eða leigu, þar sem ekki sé til fjármagn til starfseminnar sem er samt svo nauðsynleg þar eins og annars staðar:

„Ekki er annað sýnna en að Akureyri verði brátt þeim örlögum að bráð að geta hvorki boðið upp á náðhús eða líkhús.

Þetta samfélag gat þó fyrir nokkrum áratugum – þegar það var miklu fámennara – byggt og rekið myndarlegt almenningssalerni undir kirkjutröppunum þar sem bæjarbúar og gestir þess léttu á sér undir traustri stjórn Rögnvaldar kammerráðs.

Ragnar kaupmaður Sverrisson.

Nú er það ofvaxið getu bæjarins að halda uppi slíkri grunnþjónustu í vaxandi ferðamannabæ enda þótt bæði Grenivík og Kópasker geri það án vandræða.

En ekki er ein báran stök. Síðustu daga berast þær fréttir að að búið sé að setja líkhús Akureyrar á söluskrá vegna þess að ekki fæst fé frá ríkinu til að standa straum að rekstri þess. Fyrir nokkrum árum vafðist þó ekki fyrir sömu aðilum að byggja þessi myndarlegu hús sem vissulega gegna þýðingarmiklu hlutverki í bænum. Nú stefnir allt í að þau verði seld og sú þjónustu sem þar hefur farið fram síðustu árin lendi á víðavangi.

Það er ekki mikill sómi að því að í bæ sem vill kalla sig höfuðborg Norðurlands sé hvorki náðhús eða líkhús. Því er full ástæða til að hvetja viðkomandi yfirvöld að kippa þessum málum í liðinn; annað er tæpast boðlegt.“