Grísk stjórnvöld hafa ákveðið að fólk þurfi að eyða amk. 30% tekna sinna á rafrænan hátt, ella þurfa að greiða þungar sektir. Frá þessu greindi hið ástralska Sunday Morning Herald á dögunum.
Með þessu eru stjórnvöld þarlendis að reyna að koma í veg fyrir skattaundanskot og auka tekjur ríkisins um 500 milljón evrur árlega. Samhliða því ætla þau að lækka skatta á einstaklinga og fyrirtæki. Grikklandi hefur tekist að snúa vörn í sókn hvað varðar hagvaxtarskilyrði, en ný stjórn tók við völdum eftir síðustu þingkosningar í landinu.
Uppátækið þykir einsdæmi, en talið er að skuggahagkerfi Grikklands sé það stærsta í heiminum. Margir launþegar í Grikklandi fá útborgað í reiðufé, en margir eru taldir „hverfa undir radarinn“ þar sem að skattar og gjöld í Grikklandi eru með hæsta móti og skrifræðisbákn stjórnvalda þarlendis er svifaseint.