Hafskipsmenn handteknir, Albert hrakinn úr pólitík og Styrmir öskraði á mig

Hallur Hallsson var um árabil fréttamaður á Ríkissjónvarpinu og Stöð 2, en þar áður hafði hann verið blaðamaður á Dagblaðinu, DV og Morgunblaðinu. / Ljósmynd: Rúnar Gunnarsson.

Hallur Hallsson, sem var fréttamaður á Ríkissjónvarpinu og Stöð 2 um langt skeið, gerir upp feril sinn í sjónvarpi í grein sem heitir Í stormum minnar tíðar, í nýútkomnu hefti tímaritsins Þjóðmál.

Viljinn birtir hér nokkur stutt brot úr greininni með góðfúslegu leyfi höfundar.

„Ég stóð vaktina þegar ríkiseinokun ljósvakans var brotin á bak aftur og hóf störf þegar sjónvarp var bara sex daga vikunnar, ellefu mánuði á ári. Reagan og Gorbatsjov hittust í Höfða og eins og áður sagði hrundi SÍS með brauki og bramli og Hafskip strandaði með miklu brambolti svo að Útvegsbankinn féll og Sjálfstæðisflokkurinn klofnaði. Hafskip var keyrt í þrot og forráðamenn hnepptir í varðhald og ákærðir.

Í desember 1985 var Hafskip úrskurðað gjaldþrota og í maí 1986 dró til tíðinda. Ég var fyrir utan Sakadóm í Borgartúni þegar Hafskipsmenn voru leiddir inn í Sakadóm einn af öðrum af fílefldum lögreglumönnum. Þetta var skömmu fyrir fréttir. Þetta var fyrir daga beinna útsendinga af fréttaviðburðum svo keyrt var í hendingskasti með myndir úr Borgartúni upp á Laugaveg 176, þar sem Sjónvarpið var til húsa.

Björgólfur Guðmundsson og Ragnar Kjartansson, ásamt nokkrum yfirmönnum Hafskips, höfðu verið handteknir í morgunsárið og nú átti að úrskurða þá í gæsluvarðhald. Hinir handteknu voru þekktir menn í íslensku þjóðlífi og handtaka þeirra að sönnu stórmál. Dramatískar myndir af Hafskipsmönnum voru sendar upp á fréttastofu og pródúsent „klippti“ fréttina meðan ég var ennþá í Borgartúni.

Allt ætlaði vitlaust að verða á landinu bláa. Aldrei í sögunni hafði viðlíka frétt verið birt í sjónvarpi né myndir af sakborningum. Sjónvarpið var óspart gagnrýnt fyrir fréttina.

***

Tæpum mánuði síðar „játaði“ Guðmundur „Jaki“ Guðmundsson formaður Dagsbrúnar í beinni á 17. júní að hafa þegið peninga frá óvinunum Eimskip og Samskip og það úr hendi kapítalistans Alberts Guðmundssonar.

Jakinn hafði verið að jafna sig eftir erfið veikindi. Hann var hrakinn úr pólitík af flokkseigendum Alþýðubandalagsins. Sjónvarpið var sakað um að brjóta gegn helgi þjóðhátíðardagsins. 

Albert Guðmundsson var flæmdur úr ríkisstjórn, en hann hafði verið stjórnarformaður Hafskips. Hann hafði þegið tvær greiðslur frá Hafskip en ekki gefið upp til skatts og sagði þær hafa verið afslætti vegna fyrirtækis síns. Albert hafði áður verið bolað úr fjármálaráðuneytinu til þess að rýma fyrir formanni Sjálfstæðisflokksins, Þorsteini Pálssyni. Albert hafði þá farið í iðnaðarráðuneytið.

Sjálfstæðisflokkurinn klofnaði í beinni á útmánuðum 1987 hjá okkur Ingva Hrafni Jónssyni eftir að hinn lánlausi Þorsteinn Pálsson hafði útilokað að Albert ætti afturkvæmt í ráðherrastól.

Þetta hafði Þorsteinn sagt í beinni á Stöð 2 í samtali við Pál Magnússon og Ólaf E. Friðriksson. „Það kemur ekki til greina að Albert verði ráðherra,“ sagði Þorsteinn Pálsson. Við Ingvi Hrafn bárum ummælin undir Albert og það bókstaflega „kviknaði“ í skiptiborði Sjónvarpsins. Það reis samúðarbylgja með Alberti. Fólk hringdi látlaust inn og fjölmargir mættu fyrir utan sjónvarpshúsið. „Þetta getur Þorsteinn ekki sagt,“ sagði Albert.

Albert Guðmundsson fv. ráðherra.

Málin höfðu snúist í höndum Þorsteins. Borgaraflokkurinn var stofnaður og fékk 10,9% atkvæða. Sjálfstæðisflokkurinn galt afhroð. Pólitíkin er skrítin tík.

***

Jón Baldvin hafði fært Hafskip í ræðupúlt Alþingis svo allt varð vitlaust enda taldi Jón Baldvin sig koma höggi á Sjálfstæðisflokkinn. Það lá í augum uppi enda Albert Guðmundsson einn helsti leiðtogi sjálfstæðismanna og stjórnarformaður Hafskips.

En vopnin snerust í höndum Jóns Baldvins. Kratar höfðu farið með himinskautum í skoðanakönnunum með um og yfir 30% fylgi. Albert tók óánægjufylgið og kratar fengu bara helming fylgis sem kannanir höfðu gefið til kynna.

Hannes Hólmsteinn kenndi okkur Ingva Hrafni um klofning íhaldsins og minn gamli ritstjóri Styrmir Gunnarsson öskraði á mig í bræðikasti hálfur uppi á skrifborði sínu í Aðalstræti. Vinur minn ritstjórinn var hamslaus af reiði.

Þeir notuðu tækifærið til að reka Ingva Hrafn af Sjónvarpinu ekki löngu síðar út af öðru máli. Aðförin að mér hófst með áminningarbréfi en áður en stund hefndarinnar rann upp hafði ég stokkið yfir á Stöð 2 enda hafði Páll Magnússon beðið mig að koma yfir.