Hneisa að skýrsla FME um Íslandsbanka hafi ekki verið birt

Lilja Dögg Alfreðsdóttir menntamálaráðherra/Viljinn: Rúnar Gunnarsson.

Lilja Alfreðsdóttir, viðskiptaráðherra, segir það hneisu að skýrsla fjármálaeftirlits Seðlabankans um sátt og sektargreiðslu upp á 1,2 milljarða við Íslandsbanka hafi ekki komið fyrir augu almennings.

Í samtali við RÚV sagði hún almenning sem stærsta eiganda bankans og almenna viðskiptavini eiga að borga sektina. „Það að það sé ekki búið að birta skýrsluna er hneisa að mínu mati.“

Viðskiptaráðherra segir ljóst af tilkynningu bankans til Kauphallarinnar að eitthvað mikið hafi farið úrskeiðis og hún gefur lítið fyrir þau viðbrögð bankans að segja aðeins frá sáttinni og sektargreiðslunni, en ekki öðrum efnisatriðum.

„Að stjórnendur Íslandsbanka sjái ekki sóma sinn í því að tryggja fullt gagnsæi og fyrirsjáanleika þegar þau standa í svona málum,“ segir hún og telur þetta vísbendingu um að ekki sé hægt að treysta fjármálakerfinu hér á landi.