Hrafnista vill saxa á biðlista: ríkið ekki besti húseigandinn eða húsbyggjandinn

Aríel Pétursson, formaður Sjómannadagsráðs.

„Mikið er ég ánægður að sögur af því sem vel er gert rata í ræður ráðherra og þingmanna. Reykjavíkurborg og ríki treystu Sjómannadagsráði fyrir uppbyggingu hjúkrunarheimilis Hrafnistu og þjónustumiðstöðvar við Sléttuveg í stað þess að fara þá leið að efna til hönnunarsamkeppni eða láta opinberar stofnanir sjá um framkvæmdina,“ segir Ariel Pétursson, formaður Sjómannadagsráðs.

Hann deilir frétt Viljans á fésbókinni, þar sem greint var frá umræðum á alþingi í vikunni, þar sem fjármálaráðherra gagnrýndi háan byggingarkostnað hjúkrunarheimilis sem ríkið er að byggja á Árborg í samanburði við framkvæmdir Sjómannadagsráðs í Reykjavík.

Fram kom í máli fjármálaráðherra, að teknir hafi verið frá 25 milljarðar kr. í fyrir árin 2020–2024 til að byggja hjúkrunarrými. „Þessir peningar gengu ekki út og það söfnuðust upp milljarðar á milljarða ofan á milli ára. Þannig að umræðan sem þá gekk á um að það vantaði fjármagn í byggingu hjúkrunarrýma var bara röng. Það er mín skoðun að við eigum að hætta með opinberar áætlanir um það hvernig við byggjum rými og steypum upp hús með ríkissteypu og bara tryggja fólki aðgengi að þessari þjónustu og treysta sjálfseignarstofnunum og öðrum sem eru að veita þessa þjónustu til að gera sínar áætlanir um byggingu mannvirkjanna og við eigum síðan að greiða þeim fyrir það,“ sagði ráðherrann á þingi í vikunni.

Aríel fagnar þessum ummælum mjög:

„Þetta er að okkar viti (og allra skynsamra) langbesta leiðin, enda höfum við um sjötíu ára reynslu af byggingu, viðhaldi og rekstri hjúkrunarheimila. Vinsældir Hrafnistu á Sléttuvegi segja allt sem segja þarf um afraksturinn. Húsið er falleg og góð hönnun okkar arkitekta sem hafa sérhæft sig í þessum málaflokki, en fyrst og fremst fara alfarið eftir óskum starfsfólks Hrafnistu og Sjómannadagsráðs sem veit nákvæmlega hvaða gólfefni henta, hvar innstungur eiga að vera, hvar best er að geyma hjálpartæki og þar fram eftir götunum. Smáatriðin skipta líka máli í hönnun svona sértækra húsa. Fyrir vikið erum við með hlýlegt en nýtískulegt heimili sem er klæðskerasniðið fyrir notkunina.

Þetta var allt gert fyrir um það bil helminginn af fermetraverði hjúkrunarheimilisins nýja á Selfossi.

Við erum klár í næsta verkefni til þess að fjölga hjúkrunarrýmum og saxa á biðlistana um leið og höggvið hefur verið á þá hnúta sem fjármálaráðherra talar um í þessari frétt. Kerfisbreytingar er þörf svo óhagnaðardrifin félagasamtök eins og Sjómannadagsráð geti látið verkin tala líkt og gert var á Sléttuveginum, því það hefur sýnt sig og sannað að ríkið er ekki besti húseigandinn eða húsbyggjandinn,“ bætir hann við.