Hrun í Airbnb-leigu vestanhafs sem minnir á undirmálskrísuna 2008

Margir íbúðaeigendur í Bandaríkjunum sem leigt hafa út íbúðir sínar til skamms tíma gegnum bókunarfyrirtæki á borð við Airbns og booking.com þurfa nú að selja eignir sínar sem gæti leitt til verðfalls á húsnæðismarkaði þar í landi á pari við það sem gerðist vegna undirmálslánanna 2008.

Þetta kemur fram í mati greiningarfyrirtækisins Reventure Consulting og fregnum fleiri fjölmiðla, sjá t.d. hér, í Bandaríkjunum, sem benda á að í mörgum borgum þar í landi hafi ferðamannaiðnaðurinn alls ekki tekið nægilega vel við sér eftir faraldurinn. Sumstaðar eru bókanir skammtímaíbúða niður um allt að 50% sem skýrist af tvennu; færri ferðamönnum en gert var ráð fyrir og gríðarlegri aukningu í framboði á leiguíbúðum.

Þetta þýðir vitaskuld að margir eru farnir að tapa á fjárfestingu íbúðarhúsnæðis í þessu skyni og er spá greiningaraðila að margir reyni að selja húsnæði sitt á þessu og næsta ári, einkum á þeim svæðum sem finna mest fyrir minnkandi ferðaþjónustu. Geti þetta leitt til tímabundins verðfalls, en skapi um leið kauptækifæri fyrir þá sem eru að leita sér að húsnæði til að búa í sjálfir í stað þess að leigja það út eða langtímafjárfesta.

Á umliðnum árum hefur skammtímaíbúðum fyrir ferðamenn snarfjölgað í Bandaríkjunum, eða úr 200 þúsund fyrir sjö árum í rúmlega milljón íbúða nú. Þetta hefur leitt til skorts á hefðbundnu íbúðarhúsnæði, líkt og víða annars staðar í heiminum, enda góð tekjuvon í skammtímaútleigu þegar ferðamennskan gengur vel.

Fréttaflutningur af málinu undanfarna daga hefur orðið til þess að hlutabréf í Airbnb hafa fallið nokkuð í verði og hafa forsvarsmenn fyrirtækisins sakað greiningaraðila um að ofmeta niðursveiflu í ferðamennsku, enda þótt þeir staðfesti samdrátt milli mála, einkum á tilteknum svæðum.